Glúmur Baldvinsson, sonur Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bryndísar Schram, segir það skömm að á Íslandi getur verkafólk ekki lifað á launum sínum.
„Ísland er eitt ríkasta land í heimi. Það er til skammar að hér skuli líðast að fólk geti ekki lifað með reisn af launum sínum. Svo fámennt samfélag og ríkt á að vera fyrirmyndarríki og fyrirheitna land jöfnuðar. Það er mín skoðun,“ skrifar Glúmur á Facebook.
„Mér var innrætt frá byrjun að standa með verkafólki. Skildi ég ekki lengi vel af hverju þeir sem vinna erfiðustu störfin fengu lægst launin. Þessu velti ég fyrir mér sex ára í göngu með mömmu fyrsta maí. Og ég er enn þeirrar skoðunar. En þessi undarlega aðferð Sólveigar að óska eftir því að þeir einir eða um 300 manns sem vinna á hótelum eigi að taka slaginn fyrir ríflega 25 þúsund er ísjárverð,“ skrifar Glúmur.
„Og eins að aðgerðirnar eigi einvörðungu að beinast gegn einu fyrirtæki? Er ekki eitthvað bogið við það? Fengust allir hinir ekki til að vera með? Það er ekki allt með felldu í þessari baráttu. Kapp er best með forsjá,“ bætir Glúmur við að lokum.