Glúmur sendir frá sér yfirlýsingu vegna „meintra“ sambandsslita við Línu Rut: „Fjölmiðlar gefa engum grið“

Stjórnmálamaðurinn Glúm­ur Bald­vins­son hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar í gær um að hann og myndlistarmaðurinn Lína Rut Wil­berg væru hætt saman. Smartland greindi frá sambandsslitunum í gær. Þau byrjuðu saman fyrr á árinu en Glúmur hefur lengi verið á listum fjölmiðla yfir eftirsótta piparsveina.

Lína Rut hefur verið mjög virk í listinni síðustu ár. Glúmur vakti mikla athygli fyrir eftirminnilega kosningabaráttu fyrir Frjáls­lynda lýðræðis­flokkinn í alþingiskosningunum í haust, hann stefnir nú á framboð í borginni í vor.

Glúmur sendi frá sér yfirlýsingu á Facebook í gærkvöldi, yfirlýsingin er í nafni þeirra beggja en Lína Rut hefur ekki gefið nein viðbrögð á samfélagsmiðlum. Svo virðist sem þau hafni því að vera hætt saman:

„Í ljósi þeirra ótíðinda sem dynja nú á þjóðinni á erfiðum COVID tímum um meint sambandsslit mín og Línu Rutar finn ég mig tilknúinn að senda eftirfarandi yfirlýsingu,“ segir í inngangi.

„Vitaskuld hlýtur þjóðin að vera í molum yfir þessum ótíðindum líkt og þegar Karl bretaprins og Díana skildu skiptum. Og þegar Kennedy var skotinn. Staðreyndin er hins vegar sú að ég og Lína eigum í samningarviðræðum.. Eins konar stjórnarmyndunarviðræðum þar sem nú einvörðungu á eftir að ákveða hvur verður forsætisráðherra og hvur ekki. Einnig ber að líta til þess að við tvö verðum áður en að niðurstaða liggur fyrir að líta til Kjörbréfanefndar og hvernig spilast úr kosningasvindlinu í norðvestri. Því þar erum við tvö ósammála. En einsog mætur maður sagði Birgir Ármanns þá vil ég árétta að málið er á þessu stigi í nefnd og í réttum farvegi og niðurstaða mun verða kunngjörð von bráðar.

Virðingarfyllst, Glúmur Baldvinsson og Lína Rut Wilberg. Stay with us for updated news.“

Bætir hann svo við að brottrekstur „Ólafs Gunnars frá Sólskeri“ hafi mikil áhrif á gang mála.

Margir hafa sent Glúm heillaóskir, Glúmur er ekki sáttur við að staða sambandsins hafi ratað í fjölmiðla.

„Já staðan er sú að fjölmiðlar gefa engum grið,“ segir hann. „Mér þætti svo vænt um ef ég fengi frið með mitt einkalíf en það verður seint.“