Glúmur: Óskiljanlegt að listamenn séu á heiðurslaunum til æviloka

Glúmur Baldvinsson, sem mun skipa oddvitasæti á lista Frjálslynda lýðræðisflokksins, segist bera ómælda virðingu fyrir okkar helstu listamönnum í gegnum árin. Hann getur þó ekki fyrir nokkra muni sætt sig við að sumir listamenn fái heiðurslaun til æviloka.

Glúmur, sem er sonur Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra, viðraði þessa skoðun sína á Facebook og er tilefnið væntanlega umræðan í síðustu viku þar sem skotin gengu á milli Bubba Morthens og Brynjars Níelssonar vegna Samherjamálsins.

„Ég ber ómælda virðingu fyrir okkar helstu listamönnum einsog Laxness, Bubba, Erró, Guðmundi Andra, Hallgrími Helga, Helga Björns, Kjarval, Baltasar, Hilmi Snæ, Stefáni frá Möðrudal, Björk, Andra Snæ og svo framvegis og þar frameftir götum. Hvað er lífið án góðrar bókar, kvikmyndar eða málverks,“ spyr Glúmur og spyr svo:

„Af hverju þarf að borga listamönnum sem bera sig vel listamannalaun. Ég viðurkenni og vona að flestir ofannefndir lifandi þiggi ekki slík laun en af hverju heiðurslaun? Af hverju að borga vel efnuðu fólki heiðurslaun úr ríkiskassanum? Af hverju ekki frekar að hengja á það orðum einsog fálkaorðu og láta þar við sitja? Af hverju að borga heiðurslaun til æviloka?“

Glúmur spyr svo hvort heiðurslaunin séu tekjutengd eins og laun öryrkja og eldri borgara. „Ef svo er ekki þá er það sem blaut tuska í andlit alls vinnandi og óvinnufærs fólks í þessu landi. Hvort þessi snobblaun eru tekjutengd eða ekki þá á að leggja þau alfarið niður.“