Glúmur miður sín eftir úrslit dagsins: „Mitt líf er hrunið og verður aldrei samt“

Glúmur Baldvinsson, sonur Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bryndísar Schram og frambjóðandi Frjálslynda lýðræðisflokksins í síðustu Alþingiskosningum, ritaði afar tilfinningaþrungna færslu á Facebook nú í kvöld. Tilefnið var 4-1 tap Manchester United fyrir Watford í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Glúmur er mikill stuðningsmaður Manchester United og brennur greinilega fyrir lið sitt. Hann sparaði ekki stóru orðin í færslu á Facebook-síðu stuðningsmanna Manchester United á Íslandi eftir tap liðsins.

Færsla Glúms hljóðaði svo: „Mitt líf er hrunið og verður aldrei samt. Ég mun aldrei dansa aftur eða líta himininn sömu augum. Bara sorti framundan í göngum sem hvergi enda eftir þennan dag. Ég þarf enga huggun enda hvergi hægt að hugga mann án net og símasambands. Týndur í allsherjar myrkviði og gleyptur af svartholi. 4 - 1. Eru menn að grínast í mér. Hvernig er hægt að tapa 1 - 4 á móti einhverju liði sem enginn nútímamaður eða homo sapiens kannast við? Watford my arse,“ segir Glúmur.

Hann lætur þó ekki staðar numið þar og heldur áfram: „Þetta er búið. Hér skrifa ég ekki meir. Góða nótt. Vegni ykkur hinum eftirlifandi vel. Það var gaman að kynnast ykkur um stund,“ segir Glúmur og virðist tilkynna það að hann muni ekki rita framar á Facebook-síðu íslenskra stuðningsmanna Manchester United.

Hann er ekki eini stuðningsmaður liðsins sem sleikir sárin um þessar mundir enda gengið verið afar slæmt. Þó sýna ekki allir jafn dramatísk viðbrögð og Glúmur, en hann ritar hins vegar færslur afar reglulega inn á síðu hins áðurnefnda hóps. Þá kveðst hann eiga miða á leik liðsins gegn Arsenal nú í byrjun desember en veltir því hreinlega fyrir sér hvort hann eigi að hætta við þá ferð – hann vill ekki leggja meira á sig.