Glúmur fengið nóg: Vill leggja niður dómstól götunnar – Hvar er forsetinn?

Glúmur Baldvinsson, frambjóðandi Frjálslynda lýðræðisflokksins, fyrir komandi kosningar segist ekki sjá betur en að samfélag Íslendinga sé að fljóta sofandi að feigðarósi.

Glúmur vísar í þá umræðu sem skýtur reglulega upp kollinum á samfélagsmiðlum um ýmsa nafngreinda einstaklinga. Vísar hann til dæmis í nýleg dæmi um Magnús Scheving, Eið Smára Guðjohnsen og tónlistarmanninn Auðun Lúthersson sem er best þekktur undir listamannsnafninu Auður.

„Mér sýnist samfélag okkar Íslendinga fljóta sofandi hrætt að feigðarósi. Fyrst var það þessi og svo er það hinn. Magnús Scheving verður að afsaka sig og Eiður Smári má ekki míga á vegg. Tónlistarmaður er ekki lengur í spilun og aðrir á geðdeild.“ 

Glúmur segist ekki vera að halda fram sekt eða sakleysi viðkomandi heldur einungis að biðja um heilbrigða skynsemi.

„Drepi maður mann þá höfum við hér réttarkerfi til að skera úr um það. Því hvenær drepur maður mann? Leggjum niður dómstól götunnar,“ segir Glúmur sem kallar eftir því að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, láti til sín taka.

„Það er akkúrat á svona tímum í okkar samfélagi að hlutverk forseta Íslands verður okkur ljóst. Sameiningartáknið. Nú ætti forseti vor að stíga á stokk og tala til þjóðarinnar. Nú er sá tími kominn að forseti íslensku þjóðarinnar geti loks orðið þjóð sinni að gagni. Ég skora á forsetann að hefja upp raust sína. Geri forsetinn það ekki þá hefur hann engan tilgang. Og ekkert erindi.“

Fleiri fréttir