Gleymt viðfangsefni

 

Framleiðni í íslensku atvinnulífi er sögð vera  fjórðungi minni en á Norðurlöndum. Framleiðni er að sönnu fremur óskýrt og stofnanalegt orð eða hagfræðihugtak. En framhjá því verður samt ekki litið að hún er undirstaða sjálfbærrar verðmætasköpunar, lífskjara og velferðar.

Með öðrum orðum: Framleiðni er betri mælikvarði á vöxt og viðgang þjóðarbúsins en hagvöxtur.

Nú eru liðin fjögur ár síðan skýrsla McKinsey kom út. Hún dró með skýrum og málefnalegum hætti athyglina að þessum höfuðvanda í íslenskum þjóðarbúskap. Ofmælt væri að segja að skýrslan hafi verið hundsuð. En stjórnamálaflokkarnir hafa farið í kringum kjarna málsins í henni eins og köttur sem fer í kringum heitan graut.

Á þessum tíma hafa tvær ríkisstjórnir haft tækifæri til þess að leggja fram efnahagsáætlun með kerfisbreytingum sem miðuðu að því að bæta framleiðnina. Hvorug þeirra hefur gert það. Það er eitt stærsta pólitíska vandamálið sem við blasir.

Eitt af hollráðum McKinsey laut að þróun ferðaþjónustunnar. Þar sagði skýrt og skorinort að markmiðið ætti að vera verðmætasköpun og aukin framleiðni fremur en magn eða fjöldi ferðamanna. Við fórum hina leiðina. Þvert á hollráðin.

Sjávarútvegurinn og orkufreki iðnaðurinn eru einu greinarnar í þjóðarbúskapnum sem þola alþjóðlegan samanburð í þessu tilliti. Frá því að skýrsla McKinsey kom út hefur gjáin milli okkar og annarra Norðurlanda nánast ekkert minnkað.

Útflutningstekjur þurfa að vaxa að minnsta kosti jafn hratt og þjóðarframleiðslan til þess að jafnvægi haldist til lengri tíma. Það er ekki að gerast þrátt fyrir gjaldeyristekjuflóð í ferðaþjónustunni.

Vægi alþjóðageirans og þá alveg sérstaklega hugvitsiðnaðarins í útflutningi hefur ekki aukist. Í McKinsey skýrslunni er þróun í þá veru talin besta leiðin til að auka framleiðni og fjölga störfum þar sem laun eru tiltölulega há.

Fjögur ár eru ekki ýkja langur tími. Við því var ekki að búast að umskipti hefðu orðið að þessu leyti. En vísir að framförum hefði ekki verið óeðlileg krafa.   Verst er að markmiðið um framleiðniaukningu og umræða um leiðir að því er ekki svo mikið sem komin á dagskrá stjórnmálaumræðunnar í öðrum kosningum eftir að skýrslan kom út.

Framleiðni kallar á margs konar kerfisbreytingar á ýmsum sviðum. Þær raska við rótgrónum hagsmunum. Trúlega er óttinn við að hreyfa við þeim skýring á þögninni um þetta viðfangsefni fremur en skilningsskortur. Það athyglisverða er að allir þingflokkarnir eru á sama báti að því er þetta varðar. Þeir eiga gleymskuna saman.