Gissur jarðsunginn í dag: „Eitt gerði hann sem ekki margir léku eftir“

Gissur Sigurðsson, hinn ástsæli og vinsæli fréttamaður, var jarðsunginn frá Selfosskirkju í dag. Gissur, sem fæddist 7. desember árið 1947, lést 5. apríl í fyrra.

Þorvaldur Friðriksson, fyrrverandi samstarfsfélagi Gissurar á RÚV, minnist hans með hlýjum orðum í minningargrein í Morgunblaðinu í dag. Þorvaldur minnist góðs vinar og mikils gleðigjafa en þeir störfuðu saman um árabil á fréttastofu Útvarps.

„Gissur kunni þá list að segja sögu og flutti fréttir sínar með rödd sem var þrungin sannfæringarkrafti þannig að lítil veðurfrétt gat hljómað eins og að þriðja heimsstyrjöldin væri hafin. Aldrei brást að Gissur kom með einhverjar mikilvægar fréttir tengdar sjávarútvegi í hádegis- eða kvöldfréttir og naut þar þekkingar og reynslu og heimildarmanna sem hann hafði í þessari mikilvægustu atvinnugrein landsins.“

Þorvaldur segir að eftirminnilegastar séu fréttir tengdar sérgáfu Gissurar, en hann var þekktur fyrir skemmtilegar og líflegar frásagnir af mönnum og málefnum. Þorvaldur rifjar upp nokkrar slíkar frásagnir Gissurar.

„Gissur flutti í útvarpi fréttir af flótta kýrinnar Sæunnar sem sleit sig lausa þegar átti að slátra henni í sláturhúsi á Flateyri, en kýrin barg lífi sínu með því að kasta sér í sjóinn og synda til hafs. Frásögnin var mergjuð og áhrifarík, kannski svolítið sorgleg, eins og fréttin um tvær kýr sem eldingu laust niður í nærri Skorradal. Gissur unni þjóðlegum fróðleik og keypti eitt sinn bókina Harðsporar sem fjallaði um útigangsfé á Reykjanesi. Athygli hans vöktu getnaðarvarnir kindanna, kölluð spjöldun sauðfjár, en aftan á þær voru saumuð spjöld til að varna því að hrútar gætu lembt þær á óheppilegum árstíma. Þetta var upphaf þess að við stofnuðum skemmtifélag sem safnaði ýmsum hnyttilegum upplýsingum um búfé og kölluðum P-félagið. Það félag varð mikill menningarauki á Fréttastofu útvarps þegar menn gerðu sér glaðan dag og þá var veitt hagalagðaorðan þeim sem skarað höfðu fram úr á einhverju sviði.“

Þorvaldur segir að það hafi verið mikil gæfa að eiga Gissur að vini og vinnufélaga og nokkur sorg ríkt þegar Gissur ákvað að söðla um og gerast fréttamaður á Bylgjunni. Hann segir að ómögulegt sé að rekja afrek Gissurar í fréttamennsku í örfáum orðum en má þó til með að nefna eina tiltekna frétt sem vakti athygli víða.

„Eitt gerði hann sem ekki margir léku eftir. Hann heyrði af samningum Vegagerðarinnar vegna steina sem stóðu í vegarstæði við Ljárskóga í Dölum. Samningaviðræðurnar voru við álfa sem bjuggu í steinunum með milligöngu miðils. Gissur hringdi þegar í miðilinn og hafði eftir álfunum að annan steininn mætti færa og hinn fjarlægja með öllu. Þessi frétt í virtum fjölmiðli þar sem vitnað var til álfa var þýdd yfir á ensku og Reuterfréttastofan sendi síðan út um allan heim. Málið vakti mikla athygli og hingað voru sendir erlendir fréttamenn vegna hennar. Gissur var einstaklega hlýr maður og átti auðvelt með að setja sig í spor annarra,“ segir Þorvaldur meðal annars.

Margir minntust Gissurar með hlýhug eftir andlát hans í fyrra. Í þeim hópi var Heimir Karlsson, sem staðið hefur vaktina í Bítínu á Bylgjunni í mörg ár, en Gissur var tíður gestur í þættinum þar sem hann sagði frá því helsta sem var í fréttum.

„Ein­stakur maður, bráð­fyndinn, bráð­skarpur og sá fréttirnar oft í réttu ljósi og sagði skemmti­lega frá,“ sagði Heimir meðal annars.