Gísli Marteinn vill sektir strax á nagladekk: Ekki sáttur við vinnubrögð lögreglu

Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, segir að það sé mikill ljóður á annars ágætu embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins, að framfylgja ekki banni við nagladekkjum strax 15. apríl.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnti á það í gær að samkvæmt reglugerð er óheimilt að nota nagladekk á tímabilinu frá 15. apríl til og með 31. október. Jafnframt var tekið fram að í sömu reglum sé undanþáguákvæði sem heimilar að nota neglda hjólbarða ef þess er þörf vegna akstursaðstæðna. Hingað til hefur lögreglan ekki beitt sektum strax og oftar en ekki hefur aprílmánuður fengið að líða áður en farið er að sekta.

Þessu vill Gísli Marteinn að verði breytt og segir hann á Twitter-síðu sinni að engar þær akstursaðstæður sem koma upp á höfuðborgarsvæðinu rökstyðji undanþáguákvæðið.

„Undanþágan sem reglugerðin býður uppá er ekki hugsuð þannig að ef *einhversstaðar á Íslandi* sé snjór, þá megi löggan á hbsvæðinu sleppa því að framfylgja banni við nagladekkjum. Slíkt er afskræming á vilja löggjafans og lögreglan komin langt útfyrir verksvið sitt.“

Hann segir aftur á móti að ef einhver kemur akandi til Reykjavíkur frá snjóþungu svæði, yfir ísilagðar heiðar, þá sé hægt að beita undanþágu. „En að láta allan fjöldann ausa yfir borgarbúa heilsuspillandi svifryki vegna slíkra tilvika er fráleitt og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ætti að tjá sig um þessi fráleitu vinnubrögð löggunnar.“

Einn, sem býr fyrir austan fjall en vinnur í Reykjavík, spyr hvort íbúar þar eigi að búa við minna umferðaröryggi af því að það er snjóléttari vetur á höfuðborgarsvæðinu en til dæmis Selfossi. Gísli Marteinn sýnir því lítinn skilning og segir:

„Ég er ekki að ræða hér um hvort þetta eigi að vera svona. En þetta ER svona. Það er bannað að vera á nöglum eftir 15. apríl. Það að sumir búi fyrir austan fjall lá alveg fyrir þegar það var ákveðið.“