Gísli Marteinn: „Þessi kona er fullkomið fífl“

Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, hefur litla þolinmæði gagnvart svokölluðum kóvitum – eins og vonandi flestir.

Gísli er virkur á Twitter og hann deildi myndbandi af bandarísku þingkonunni Marjorie Taylor Greene sem hún birti á Twitter-síðu sinni í gær. Í myndbandinu sést Marjorie í ræktinni heima hjá sér, þar sem hún lyftir lóðum og gerir upphífingar. Segir hún í færslu sinni að þetta sé hennar vörn gegn COVID-19. Leggur hún svo til að Anthony Fauci, sérfræðingur í smitsjúkdómum og einn helsti ráðgjafi bandarískra stjórnvalda í COVID-faraldrinum, verði rekinn úr starfi.

Gísli Marteinn hefur lítið þol fyrir áróðri af þessu tagi. Hann segir í færslu sinni: „Þessi kona er fullkomið fífl. Hún er á móti sóttvarnaraðgerðum, á móti öflugustu og bestu fjölmiðlum Bandaríkjanna, á móti háskólasamfélögum, frjálslyndi en mest á móti góða fólkinu. Hún er líka þingkona á bandaríska þinginu og hún telur að líkamsrækt verji sig fyrir Covid.“

Marjorie þessi er býsna umdeild þingkona Repúblikanaflokksins, en í febrúar síðastliðnum samþykkti meirihluti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að víkja henni úr þingnefndum vegna vægast sagt umdeildra ummæla hennar og skoðana. Hún hefur til dæmis haldið á lofti ýmsum samsæriskenningum og viðhaft hatursfull ummæli.

Þá sagði hún hún eitt sinn að ein mannskæðasta skólaárás í sögu Bandaríkjanna, árásin í Parkland í Flórída árið 2018 hefði verið sviðsett. Sautján manns létust í skotárásinni, en flestir í þeim hópi voru á aldrinum 14 til 17 ára.