Gísli Marteinn ósáttur: „Algjörlega óþolandi og gamaldags“

Óhætt er að segja að talsmenn þess að stunda bíllausan lífsstíl séu ósáttir við fyrirhugaðan flutning verslunar ÁTVR úr Austurstræti.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að ÁTVR hefði nú auglýst eftir leiguhúsnæði í miðbænum þar sem til stendur að loka versluninni í Austurstræti og færa á aðgengilegri og hentugri stað.

Rætt var við Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, um málið og sagði hún endanlega ákvörðun um flutning ekki liggja fyrir. Það fara eftir því hvað býðst og ákvörðun verði tekin í framhaldinu. En ljóst er að vilji stendur til að færa verslunina og bendir Sigrún á að verslunin í Austurstræti sé óhentug. Þannig er hún á tveimur hæðum, lagerinn er niðri og svo er ekki beint auðvelt að flytja aðföng í verslunina.

Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, er ekki hrifinn af hugmyndinni. „ÁTVR er með alveg hrikalega fjandsamlega stefnu öllu því fólki sem ekki er á bíl. Algjörlega óþolandi og gamaldags,“ segir hann á Twitter.

Björn Teitsson, fyrrverandi formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, vandaði Sigrúnu ekki beint kveðjurnar í sinni Twitter-færslu. Hann sagði:

„Af hverju hatar þessi kona svona innilega að fólk gangi eða hjóli til að kaupa áfengi? Er hún á samningi hjá olíufyrirtækjum? Ekkert fyrirtæki hvetur meir til óþarfa aksturs og nú að gera ástandið enn verra. Galið dæmi.“