Gísli Marteinn krefst svara – Ráðherra: „Argasta vitleysa“

„Er það í alvöru þannig að Sjálfstæðisflokkurinn sé að stoppa frumvarp um afglæpavæðingu fíkniefna?,“ spyr Gísli Marteinn Baldursson, fjölmiðlamaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, á Twitter. Óskar hann eftir viðbrögðum Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra. „Hver er ykkar skoðun? Er þetta ekki flokkur frelsis og ábyrgðar? Og af hverju að refsa fólki sem er veikt?“

Afglæpavæðing neysluskammta verður líklega ekki samþykkt á þessu þingi, er það enn fast í velferðarnefnd þingsins.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var fljót að svara og segir það vera svo:

„Já, þau stoppa afglæpavæðingu, stoppa sölu bjórs frá brugghúsum og stoppa það að foreldrar megi velja börnum sínum nöfn án þess að fá leyfi mannanafnanefndar,“ segir hún. „Þetta er enginn frelsisflokkur, þetta er argasta íhald.“

Áslaug Arna segir þetta vitleysu. „Þetta er auðvitað argasta vitleysa, tvö af þessum málum frá mér og ekki neitt af þessu stöðvað af Sjálfstæðisflokknum.“

Sveinn nokkur spurði ráðherra hvort það sé rétt, þar sem Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd, hafa báðir lýst efasemdum um áformin.

Helga Vala spyr svo ráðherrann: „Tjah, hvaða stjórnarflokkur er þá að stoppa þetta? Amk er það ekki stjórnarandstaðan...“

Gísli Marteinn krefur þær báðar um svör: „Skil ekki af hverju þið Helga og Áslaug getið ekki bara sagt okkur beint út hver er á móti þessu frumvarpi um afglæpavæðingu. Ég tel fullvíst að þið styðjið það báðar,“ segir hann. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, vill fá það samþykkt líka. „…en er eitthvað leyndarmál hver er að stoppa það? Hverskonar feluleikur er það?“

Hann kaupir ekki að það séu bara Vilhjálmur og Ámundur: „Jafnvel þótt Ásmundur og Vilhjálmur séu á móti einsog skjáskot benda til - þá dugir andstaða þeirra ekki til að droppa þetta. Hverjir aðrir eru að leggjast gegn þessu?“