Gísli Marteinn hneykslaður: Hvers vegna í ó­sköpunum er þetta leyft?

22. janúar 2021
12:47
Fréttir & pistlar

„Hvers vegna í ó­sköpunum er sýslu­manninum á höfuð­borgar­svæðinu leyft að hafa bara eitt úti­bú og það er í al­gjör­lega bíla­miðuðu hverfi í Kópa­vogi? Hefur þessi ríkis­stjórn akkúrat engan á­huga á því að hjálpa til við að minnka bíla­um­ferð? Þessu þarf að breyta.“

Þessu varpaði Gísli Marteinn Baldurs­son, sjón­varps­maður og fyrr­verandi borgar­full­trúi, fram á Twitter-síðu sinni í gær. Gísli furðar sig á því að sýslu­maðurinn á höfuð­borgar­svæðinu sé í Kópa­vogi. Gísla er bent á það að úti­búið sé mjög mið­svæðis þegar litið er til höfuð­borgar­svæðisins í heild sinni en sjálfur segir Gísli að það sé ekki mið­svæðis nema á landa­korti.

„Þunga­miðja byggðarinnar á höfuð­borgar­svæðinu er í Foss­vogi. En á þeim tíma sem sýslu­maðurinn er opinn er þunga­miðja fólks vestan við Kringlu­mýrar­braut í Reykja­vík. Ætti svona þjónusta ekki að vera þar sem fólkið er?,“ spurði hann.

Gísli Marteinn er þeirrar skoðunar að ef Sýslu­maðurinn í Reykja­vík er bara með eitt úti­bú ætti það að vera í mið­borg Reykja­víkur. Færir hann fyrir því nokkur rök:

  1. Enginn staður með jafn marga í göngu­færi.
  2. Þunga­miðja strætó­kerfisins er þar.
  3. Allir vita hvar mið­borgin er.
  4. Önnur þjónusta (t.d. passa­myndir) er lík­legri til að vera ná­læg þar en annars­staðar.

Gísli bætir svo við að lang­flest vinnandi fólk sé á opnunar­tíma sýslu­manns statt vestar­lega í Reykja­vík. „Hvers vegna ætti fólk að þurfa að ferðast þaðan, til þess að komast til sýslu­manns? Af hverju er þjónustan ekki þar sem fólk er flest?“

Út­varps­maðurinn Þórður Helgi Þórðar­son spyr þá á móti hvort Kópa­vogs­búar geti þá bara labbað í mið­borg Reykja­víkur til að komast til sýslu­manns.

Þessu svarar Gísli: „Minn kæri. Á þeim tíma sem sýslu­maður er opinn (til kl 15), eru lang­flestir í­búar Kópa­vogs í Reykja­vík að vinna. Lang­flestir raunar vestan Kringlu­mýrar­brautar. Sama gildir um aðra íbúa svæðisins. Svona þjónusta á að vera þar sem fólkið er.“

Margir leggja orð í belg en um­ræðuna má sjá hér að neðan: