Gísli Marteinn hneykslaður: Hvers vegna í ósköpunum er þetta leyft?

„Hvers vegna í ósköpunum er sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu leyft að hafa bara eitt útibú og það er í algjörlega bílamiðuðu hverfi í Kópavogi? Hefur þessi ríkisstjórn akkúrat engan áhuga á því að hjálpa til við að minnka bílaumferð? Þessu þarf að breyta.“
Þessu varpaði Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, fram á Twitter-síðu sinni í gær. Gísli furðar sig á því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sé í Kópavogi. Gísla er bent á það að útibúið sé mjög miðsvæðis þegar litið er til höfuðborgarsvæðisins í heild sinni en sjálfur segir Gísli að það sé ekki miðsvæðis nema á landakorti.
„Þungamiðja byggðarinnar á höfuðborgarsvæðinu er í Fossvogi. En á þeim tíma sem sýslumaðurinn er opinn er þungamiðja fólks vestan við Kringlumýrarbraut í Reykjavík. Ætti svona þjónusta ekki að vera þar sem fólkið er?,“ spurði hann.
Gísli Marteinn er þeirrar skoðunar að ef Sýslumaðurinn í Reykjavík er bara með eitt útibú ætti það að vera í miðborg Reykjavíkur. Færir hann fyrir því nokkur rök:
- Enginn staður með jafn marga í göngufæri.
- Þungamiðja strætókerfisins er þar.
- Allir vita hvar miðborgin er.
- Önnur þjónusta (t.d. passamyndir) er líklegri til að vera nálæg þar en annarsstaðar.
Gísli bætir svo við að langflest vinnandi fólk sé á opnunartíma sýslumanns statt vestarlega í Reykjavík. „Hvers vegna ætti fólk að þurfa að ferðast þaðan, til þess að komast til sýslumanns? Af hverju er þjónustan ekki þar sem fólk er flest?“
Útvarpsmaðurinn Þórður Helgi Þórðarson spyr þá á móti hvort Kópavogsbúar geti þá bara labbað í miðborg Reykjavíkur til að komast til sýslumanns.
Þessu svarar Gísli: „Minn kæri. Á þeim tíma sem sýslumaður er opinn (til kl 15), eru langflestir íbúar Kópavogs í Reykjavík að vinna. Langflestir raunar vestan Kringlumýrarbrautar. Sama gildir um aðra íbúa svæðisins. Svona þjónusta á að vera þar sem fólkið er.“
Margir leggja orð í belg en umræðuna má sjá hér að neðan:
Hvers vegna í ósköpunum er sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu leyft að hafa bara eitt útibú og það er í algjörlega bílamiðuðu hverfi í Kópavogi? Hefur þessi ríkisstjórn akkúrat engan áhuga á því að hjálpa til við að minnka bílaumferð? Þessu þarf að breyta @aslaugarna.
— Gísli Marteinn (@gislimarteinn) January 21, 2021