Gísla hafi verið úthýst úr leikhúsinu: „Landlægur íslenskur plagsiður að úthýsa afburðarfólki“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins, segir Gísla Rúnar Jónsson hafa verið yfirburðamann, vitrari, víðsýnni, stórfenglegri og öllum skemmtilegri.

Ekkert hafi hann þó þráð meira en að tilheyra og þjóna samfélagi sem hafi oftar en ekki hafnað honum.

„Gísli gerði ómældar kröfur til leikhússins og var sem leikari og leikstjóri fyrir þær sakir hornrækur gerður í íslensku leikhúsi sem bar því miður ekki alltaf gæfu til að taka gáfum hans fegins hendi,“ skrifar hún í minningarorðum um Gísla á vef Kvennablaðsins.

Hann hafi sem leikari bæði þreytt leikstjóra og mótleikara með endalausum hugmyndum um úrbætur. Tilraunir hans til að ná fram því allra besta hafi átt sinn fórnarkostnað.

Sérlundaður en einstakur

„Að sama skapi kreisti hann mann þegar hann var við stjórnvölinn sem leikstjóri. Hann neitaði að leyfa leikurum að „fara í skúffuna” til að sækja það sem þeir kunnu fyrir; og heimtaði að maður væri vogaður og tæki skrefið út í óvissuna til að kanna hvort ekki fyndist í þeirri leit eitthvað stærra, fyndnara og yfirgengilegra sem væri fararinnar virði.“

Steinunn segir að Gísli hafi vissulega verið sérlundaður og margir leikhúslistamenn hafi veigrað sér við krefjandi átökum sem fylgdu gjarnan samstarfi við Gísla. Slíkt samtarf gæti þó verið gefandi og stórskemmtilegt.

„Það er því miður landlægur íslenskur plagsiður að úthýsa afburðarfólki. Það er þægilegra að hafa slíkt fólk utan sviðsins því þá eru þeir sem minna geta ekki sífellt minntir á, hvað þeir eiga langt í land. Á meðan valsa aðrir um listasviðið með óverðskuldaðar nafnbætur.“

Íslenskt leikhús ekki getað án hans verið

Hún segir að mikill missir sé af Gísla úr íslensku leiklistarlífi þar sem um einstakan listamann hafi verið að ræða.

„Ég fæ aldrei aftur símtal um miðja nótt frá Gísla með ábendingum um hvað ég gæti gert betur á leiksviðinu. Enginn mun framar veita mér jafn rækilega hirtingu þegar ég laumast til að leggja mig ekki alla fram. Örlætið og vægðarleysið sem hann sýndi vinum sínum voru hvort tveggja gjafir,“ skrifar Steinunn Ólína.

Þrátt fyrir samstarfsörðugleikana hafi íslenskt leikhús ekki getað án hans verið.

„Honum var betur en öðrum gefið að þýða og staðfæra, mestan part gaman- og söngleiki og hafði hann af því atvinnu síðustu árin samhliða bókarskrifum sem geyma heimildir sem annars hefðu glatast.“

Ef hans hefði ekki notið við sem þýðanda og enduryrkjanda hefði leihúslistafólk haft úr talsvert minna að moða og efnið ekki fallið jafn vel í kramið hjá íslenskum áhorfendum. Fáir hafi þekkt þann hóp betur en Gísli Rúnar Jónsson.