Gilda landslög ekki um Svandísi? Talaði um „túlkunarágreining“ þegar Hæstiréttur dæmdi hana seka

Það vekur furðu hve litla athygli beitt og ákveðin fréttaskýring Andrésar Magnússonar hefur vakið en hún birtist í Morgunblaðinu í byrjun liðinnar viku.

Þar gagnrýndi Andrés stjórnsýslu Svandísar Svavarsdóttur og benti á að hún er í molum á ábyrgð ráðherra heilbrigðismála. Hann segir að við setningu reglugerðar um sóttvarnir hafi Svandís Svavarsdóttir ekki sýnt „minnstu viðleitni til þess að tryggja að reglugerð hefði við lög að styðjast, þá er eitthvað hræðilegt að“.

Andrés gengur enn lengra í beittri gagnrýni sinni og segir:

„Það vekur spurningar um vandvirkni, árvekni og kostgæfni æðstu embættismanna ráðuneytisins, en þó auðvitað sérstaklega æðsta embættismann þess, Svandísi Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Í því samhengi er rétt að minnast þess að annar ráðherra í þessari ríkisstjórn steig til hliðar af mun minna tilefni.“

Þarna er að sjálfsögðu átt við þegar ráðherrar Vinstri grænna kröfðust afsagnar Sigríðar Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra. Sjálfstæðismenn höfnuðu þeirri kröfu í fyrstu en þá hótaði forsætisráðherra stjórnarslitum inni á ríkisstjórnarfundi þar sem bæði var „öskrað og grátið“ að sögn viðstaddra. Sigríði var fórnað til að halda ríkisstjórninni saman. Það mál er óuppgert að mati margra sjálfstæðismanna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Svandís Svavarsdóttir brýtur af sér á stjórnmálaferli sínum. Í febrúar 2011 dæmdi Hæstiréttur hana seka í embætti umhverfisráðherra.

Ákvörðun hennar um að synja staðfestingu aðalskipulags Flóahrepps var þá dæmd ólögmæt af Hæstarétti.

Stjórnarandstaðan krafðist afsagnar Svandísar í kjölfar dómsins. Sigurður Ingi Jóhannsson fór fremstur þingmanna í þeirri kröfugerð enda þingmaður Suðurlands.

Nú situr hann sem ráðherra við hlið Svandísar í ríkisstjórn og segir fátt um vafasöm vinnubrögð hennar.

Þegar Hæstiréttur hafði dæmt Svandísi seka og afsagnar var krafist, svaraði hún einfaldlega: „Ég segi ekki af mér enda er einungis um túlkunarágreining að ræða.“

Og þar við sat. Jón eða séra Jón.