Gífurlegur verðmunur á súrum gúrkum vekur athygli

Fjörugar umræður hafa spunnist í Facebook-hópnum Vertu á verði – eftirlit með verðlagi eftir að mynd birtist þar í gær sem sýndi mikinn verðmun á agúrkúsalati, eða súrum gúrkum í sneiðum.

Sá sem setti færsluna inn tók myndina í Hagkaup og sýndi önnur þeirra Euroshopper-agúrkusalat og hin agúrkusalat frá ORA. Verðmunurinn á þeim var mikill; kílóið af agúrkúsalati frá ORA kostar 2.636 krónur en kílóið frá Euroshopper kostar 425 krónur. Óskaði viðkomandi eftir því hvort einhver gæti útskýrt þennan mikla verðmun á annars sambærilegum vörum.

Sumir benda á að munurinn felist í gæðunum og ORA-agúrkusalatið sé einfaldlega betra. „100% ekki sambærileg vara. En ORA verðið er samt crazy,“ segir í einni athugasemd við færslunni. „Ora er mun betra, en verðmunur full mikill,“ segir í annarri athugasemd.

Þá tjáir kona sig undir færslunni sem segist vera fyrrverandi starfsmaður hjá Ora en kveðst ekki vera tengd fyrirtækinu lengur. Hún segir að umræddar gúrkur séu framleiddar á Íslandi, um handgerða framleiðslu sé að ræða þar sem Ora sé ekki með vélbúnað í svona framleiðslu.