Gerir stólpa­grín að fórnar­lömbunum í al­þingis­húsinu: „Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur“

Óttar Guð­munds­son, geð­læknir, tekur þing­menn fyrir og rekur raunir þeirra í bak­þönkum sínum í Frétta­blaðinu í dag. Læknirinn skýtur föstum skotum og kveður það eina sem sam­eini alla þá þing­menn sem hann hefur kynnst sé að þau vilji halda í þing­sæti sitt sama hvað það kostar.

„Raunir Egils Skalla­gríms­sonar í Sona­tor­reki eru sem gaman­kvæði miðað við harma­kvein þing­manns sem missir þing­sæti sitt í kosningum,“ segir Óttar glettinn.

Hann bendir á að stærstur hluti þing­manna gefi alltaf kost á sér til endur­kjörs. „Ég hélt að þing­menn væru svona þaul­setnir vegna þess að þingið væri skemmti­legur og lifandi vinnu­staður þar sem fólk fengi að njóta sín landi og þjóð til heilla.“ Sam­kvæmt nýrri skoðana­könnun er það af og frá.

Alltaf tekst að fylla þingið þrátt fyrir erfið starfsskilyrði.
Fréttablaðið/Anton Brink

Berjast fyrir lífi sínu dag hvern

„Þing­menn kvarta undan ein­elti, kyn­bundnu of­beldi, kulnun, fjöl­skyldu­of­sóknum og al­mennu að­kasti.“ Þjóð­kjörnir full­trúar þurfi þannig að berjast fyrir vel­ferð og til­veru sinni bæði innan og utan þings.

„Mig rak í roga­stans þegar ég heyrði þessi ó­sköp og fylltist þakk­læti gagn­vart þessu fórn­fúsa fólki.“ Óttar sagði það krafta­verki líkast að þing­salurinn væri fylltur ár hvert miðað við þessi starfs­skil­yrði.

„Gamalt mál­tæki leitar á hugann: Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.“

Ó­keypis spá­menn og einka­þjálfarar

Læknirinn hvetur þjóðina til bregðast við undir eins, hækka kaup þing­manna og bæta við að­stoðar­mönnum til að dreifa á­laginu. „Þing­menn eiga að hafa ó­keypis að­gang að á­falla­hjálp, sál­fræði­með­ferð, geð­lyfjum, iðju- og sjúkra­þjálfun, spá­mönnum, einka­þjálfurum og prestum,“ bætir Óttar við.

„Mestu skiptir þó að þjóðin læri að meta þessar fórn­fúsu hetjur og fórnar­lömb við Austur­völl sem stunda vinnu sína af alúð og sam­visku­semi þrátt fyrir of­sóknir og ein­elti.“

Fleiri fréttir