Georg ætlar að breyta heiminum: „Ég er að vona að ég verði edrú alltaf það sem eftir er“

27. júlí 2020
12:00
Fréttir & pistlar

„Hann fálmar sig í gegnum í­búðina, rofinn virkar ekki, ljós­laust, ís­skápurinn lyktar og síminn dauður. Ljós­haf borgarinnar breiðir úr sér fyrir utan, upp­lýstir gluggar og götur. Í landinu með alla orkuna, af­gangs- og auka­orkuna er skrúfað fyrir orku­sprænuna sem liggur inn í blokkar­í­búðina hans.“

Þannig hefst frá­sögn Georgs en saga Georgs er hluti af frá­sagnar­röðinni huldu­fólks­sögur úr nú­tímanum sem birtar eru á Face­book síðunni Við erum hér líka þar sem ör­yrkjum gefst tæki­færi til að greina frá sinni upp­lifun á sam­fé­laginu.

Sjá einnig: Margrét Lilja: „halló, ég er lokuð hérna inni, getið þið hjálpað mér“ - höfuðkúpan losnaði frá efsta hryggjarlið og hún gafst upp – berst nú gegn þöggun og fyrir virðingu og mannsæmandi kjörum

Georg greinir frá því að hann hafi veikst fyrir sjö árum og fallið af vagninum í kjöl­farið en hann glímir einnig við kvíða­röskun og geð­hvarfa­sýki. Hann segir að of­beldið sem hann upp­lifði í barn­æsku og fylgir alkó­hól­isma hafa haft tölu­verð á­hrif á hann. „Ég gat haldið for­tíðinni niðri þangað til að ég var 45 ára og síðan kom þetta allt upp á yfir­borðið“ segir Georg.

Georg hafði starfað við ýmis konar verka­manna­störf og skráði sig að lokum í Mynd­listar­skóla Reykja­víkur en frægasta verk hans er lík­lega gjörningur sem hann hélt inni á Mat­höllinni á Hlemmi þar sem hann hélt ræðu um fá­tækt á Ís­landi. Þá starfaði hann lengi sem sendi­bíl­stjóri og var fenginn til að vera í for­svari fyrir verka­lýðs­bar­áttu AFL, fé­lag 70 bíl­stjóra.

Sjá einnig: Guðríður var barin á aðfangadag, missti seinna sambýlismann og sonur hennar lést – „hann dó áður en hann fékk að lifa“

Þrátt fyrir gott starf fór heilsu Georgs að hraka veru­lega eftir hrun og fannst honum hann ekki lengur passa meðal sendi­bíl­stjóra. Drykkjan tók við sem og van­líðan sem gerði það að verkum að hann féll eftir á í starfi. „Ég skildi og ég reyndi allt sem ég gat til þess að komast undan því að keyra. Ég lánaði þeim sem vildu sendi­bílinn og einn daginn bræddi vin­kona mín úr bílnum, ég var henni mjög þakk­látur.“

Drykkja Georgs varð til þess að hann tapaði góðum at­vinnu­tæki­færum í fram­haldinu og var ljóst að hann þyrfti á hjálp að halda. Ráð­gjafi mælti með að hann leitaði til Mæðra­styrks­nefndar, Sam­hjálpar eða Kirkjunnar.

Sjá einnig: Unnar lifði lífinu hratt - bíður eftir örorkumati: „sikksakkaði eftir miklubrautinni, vildi verða fyrstur að rauða ljósinu“ - „er guð að refsa þér fyrir hraðann?“

„Ég þekkti Mæðra­styrks­nefnd frá þeim tíma sem ég var að keyra út. Sam­tökin voru minn við­skipta­vinur og ég þekkti vel til starf­seminnar. Þarna kemur flótta­fólk, ör­yrkjar, gamalt fólk, alkó­hól­istar með geð­sjúk­dóma eins og ég. Fólkið utan sam­fé­lagsins og af mis­munandi á­stæðum getur ekki fótað sig innan þess,“ minnist Georg.

Hann fór fljót­lega að sjá hvernig niður­lægingin gróf um sig hjá fólki, eitt­hvað sem hann hafði ekki tekið eftir áður þegar hann var í góðu starfi og þurfti ekki að leita sér hjálpar. „Það sem fór að renna upp fyrir mér þegar ég var komin í þessa stöðu sjálfur að við erum alltaf með­höndluð sem annars flokks mann­eskjur, við munum aldrei fá góðar vörur né það besta sem völ er á.“

Sjá einnig: „Hún sagði að ég hefði breyst“ – allt sem tilheyrði lífi Erlings breyttist á einu andartaki

Georg náði sér aldrei upp í eðli­lega líðan og þremur árum síðar stakk ráð­gjafi upp á því að hann færi á ör­orku. „Ég var svo hissa, af hverju var ég ekki settur strax á ör­orku? En ég fékk mjög góðan fé­lags­ráð­gjafa sem kenndi mér að semja og for­gangs­raða,“ segir Georg en í dag fær hann 265 þúsund krónur í ör­orku­bætur.

Honum var í kjöl­farið boðið 25 prósent vinna hjá Hlut­verka­setrinu og fékk þar 45 þúsund krónur en missti í kjöl­farið húsa­leigu­bætur sínar. „Ráð­herrarnir höfðu montað sig yfir þessu svig­rúmi, 100 þúsund krónur sem mátti vinna sér inn ofan á bæturnar en það var engin sem minntist á það hvernig þau ætluðu sér að ná þessu á öðrum stað og aftur inn af ör­yrkjunum.“

Sjá einnig: Baráttukonan fjóla neitar að gefast upp: „ég kalla hann óþokkann“

Georg ætlar sér í dag að breyta heiminum og eyða fá­tækt, en það ætlar hann að gera með kænsku og kær­leika.

„Ég er að vona að ég verði edrú alltaf það sem eftir er. Ég hef fundið takt í líf mitt sem er taktur kærustunnar minnar og hún er frá austur Evrópu og kann að lifa spart. Ég er hrika­lega skotin í henni. Ég var lengi skotin í henni úr fjar­lægð en hún tók ekki eftir mér fyrr en ég klippti mig. Ég hef gefið lista­gyðjunni líf mitt og ætla að halda á­fram að gera list sem hefur pólitískan til­gang. Ég er í dauða­færi að búa til fal­legt líf, en ég má ekki drekka,“ segir Georg að lokum.

Frásögn Georgs í heild sinni má lesa hér fyrir neðan:

Við erum hér líka, huldufólkssögur úr nútímanum VIII: Georg: Alltaf meðhöndluð sem annars flokks manneskjur Hann fálmar...

Posted by Við erum hér líka on Monday, July 27, 2020