Guðjón vill loka öllu strax: „Fólk getur skálað í boðinu síðar“

„Nú er komið að því að loka öllum veitinga­stöðum eða öldur­húsum í Reykja­vík og ná­grenni. Gera þetta strax,“ segir í­þrótta­frétta­maðurinn Guð­jón Guð­munds­son, Gaupi, á Twitter-síðu sinni.

Það er ljóst að tölur um fjölda CO­VID-19-smita í sam­fé­laginu eru Gaupa ekki að skapi og ljái honum hver sem vill. Ní­tján smit greindust í gær og í fyrra­dag voru smitin þrettán. Hafa fleiri smit ekki greinst á einum degi síðan apríl þegar far­aldurinn var á hvínandi siglingu hér á landi.

„Fólk getur skálað í boðinu síðar. Þetta er að verða al­gjör þvæla. Þarf varla meira til en þessi 19 smit eða hvað,“ segir Guð­jón.

Ljóst er að ekki eru allir á sama máli og Guð­jón. Þannig hefur frétta­vefur Vísis eftir Arnari Þór Gísla­syni, eig­anda Iris­hman, Le­bowski, Kalda, Dönsku kráarinnar og Enska barsins, að lengja þurfi opnunar­tíma skemmtistaða. „Það þarf að lengja opnunar­tímann og dreifa fólki, svo það séu ekki hópa­myndanir.“

Rekja má þriðjung þeirra smita sem komið hafa upp á undan­förnum dögum til vín­veitinga­staða í mið­borginni.