Gát­listi í saka­málum

Nú á tíðum er al­gengt að al­menningur taki af­stöðu til þess, hvort dómar í refsi­málum séu „réttir eða rangir“. Margir telja sig þess um­komna að telja sak­borninga seka þó að dóm­stóll hafi sýknað þá af á­kæru. Færri telja sak­borninga sak­lausa ef dóm­stóll hefur sak­fellt þá.

Af þessu til­efni er á­stæða til að endur­birta það sem ég hef nefnt gát­lista og hefur að geyma upp­talningu á þeim at­riðum sem dómarar þurfa að að­gæta að séu allir í lagi áður en sak­borningur er sak­felldur í saka­máli:

  1. Laga­heimild til refsingar þarf að vera í settum lögum. Efni hennar þarf að vera skýrt og ber að túlka vafa sak­borningi í hag.
  2. Ekki má dæma sak­borning fyrir aðra hátt­semi en þá sem í á­kæru greinir.
  3. Heim­færa þarf hátt­semi til laga­á­kvæðis af ná­kvæmni. Dóm­endur hafa ekki heimild til að breyta efnis­þáttum í laga­á­kvæðum sak­borningum í óhag.
  4. Sanna þarf sök. Sönnunar­byrði hvílir á hand­hafa á­kæru­valds.
  5. Við með­ferð máls á á­fryjunar­stigi þarf að gæta þess að dæma sama mál og dæmt var á neðra dóm­stigi. Til endur­skoðunar eru úr­lausnir á­frýjaðs dóms; ekki annað.
  6. Sak­borningar eiga rétt á að fá ó­heftan að­gang að gögnum sem aflað hefur verið við rann­sókn og með­ferð máls.
  7. Sak­borningar eiga að fá sann­gjarnt tæki­færi til að færa fram varnir sínar.
  8. Dómarar verða að hafa hlut­lausa stöðu gagn­vart sak­borningum.

Þessar reglur kunna að leiða til þess að sekur maður verði sýknaður í dóms­máli gegn honum. Það er gjaldið sem við greiðum fyrir að geta kallast réttar­ríki.