Garðar sár út í Kristin: „Mikið sem ég vorkenni þessum manni“

Garðar Gunnlaugsson, fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta, er allt annað en sáttur við Kristin Sigurjónsson, fyrrverandi lektor við Háskólann í Reykjavík. Tilefnið er færsla Kristins þar sem hann tjáði sig um viðtal við barnsmóður Garðars, Ölmu Dögg Torfadóttur.

Alma Dögg sagði sögu sína í fyrsta þætti Ofsókna á Stöð 2 í gærkvöldi, en í þáttunum er rætt við konur hér á landi sem hafa þurft að sæta ofsóknum af hálfu eltihrella. Alma Dögg er í þeim hópi en í þættinum kom fram að hún hefði mátt þola ofsóknir í áratug og ítrekað reynt að losa sig úr klóm mannsins. Nánar má lesa um sögu hennar á vef Vísis.

Garðar birti á Twitter-síðu sinni í gær skjáskot af færslu Kristins þar sem hann tjáði sig um þættina.

„Það er ekki nóg að það séu næstum daglega fréttir af ofbeldiskarlmönnum, meðan ekki er orð um algengasta heimilisofbeldið en það er af hendi kvenna. Nú á að gera heila syrpu um þennan einhliða lýgi fölmiðlanna. Feminstar virðast vera að reyna að réttlæta þessa lýgi en af veikum vanmætti,“ sagði Kristinn.

Garðar er eðlilega ósáttur við þessi ummæli og segir:

„Mikið sem ég vorkenni þessum manni! Þarna er barnsmóðir mín, og við sem aðstandendur hennar, að tala um eltihrelli sem er búinn að hafa mikil áhrif á okkar líf síðustu 10 ár og er ennþá að! Bara núna yfir helgina hefur hann td margoft verið fyrir utan heimili foreldra hennar,“ sagði Garðar í færslunni.

Benti hann á að hún hafi þurft að skipta um vinnur, heimili, bíla og bæjarfélög en samt takist manninum alltaf að hafa upp á henni.

„Á sama tíma og þetta á sér stað er lögreglan mjög máttarvana útaf löggjöfinni og þegar hann hefur brotið nálgunarbann að þá hefur það bara verið slap on the wrist. Lögreglan hefur samt gert allt í þeirra valdi stendur þannig að það er ekki við þá að sakast! Í rauninni sorglegt í nútíma samfélagi að svona hlutir geti viðgengist og að viðkomandi sé ekki vistaður inn á viðeigandi stofnun áður en það verður um seinan.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Kristinn vekur neikvæða athygli vegna skoðana sinna, en skemmst er að minnast þess þegar honum var sagt upp af Háskólanum í Reykjavík árið 2018 vegna ummæla sem hann lét falla um konur í Facebook-hópnum Karlmennskuspjallið.