Gamli og nýi tíminn mætast í hjarta miðborgarinnar

Stórglæsilegt og vandað fjölbýlishús hefur risið upp við Hverfisgötu 92 sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hönnun og útlit. Batteríið Arkitektar hönnuðu Hverfisgötu 92 ásamt Hverfisgötu 88 og 90 með stórglæsilegri útkomu. Í þættinum Matur og Heimili hittir Sjöfn Þórðar arkitektinn Sigurð Einarsson hjá Batteríinu og Ólaf Finnbogason fasteignasala hjá Mikluborg í einni af hinum vönduðu og glæsilegu íbúðum við Hverfisgötu 92 þar sem farið er yfir hugmyndafræðina bak við hönnunina og aðdráttaraflið sem staðsetningin hefur.

M&H Sigurður Einarsson & Ólafur Finnbogason 2021.jpg

Sigurður Einarsson arkitekt hjá Batteríið Arkitektar, Ólafur Finnbogason fasteignasali hjá Mikluborg verða í þættinum Matur og Heimili hjá Sjöfn Þórðar í kvöld.

„Lagt var upp með að arkitektúr yrði fjölbreyttur, að húsin féllu vel að umhverfinu, styrktu enn frekar miðborgarmyndina og þá fjölbreyttu uppbyggingu sem unnið er að í nærumhverfinu. Leitast var við að brjóta byggingarnar upp sjónrænt til að þær féllu vel að núverandi götumynd Hverfisgötu og Skúlagötu,“ segir Sigurður um hönnunina.

Þegar við horfum til vandaðar og fallegar bygginga eins Hverfisgötu 92 er um að ræða byggingu sem er hluti af einstakri og heildstæðri uppbyggingu á stóru svæði í miðborginni. Saman fléttast nútímalegri byggingar við endurgerð nýrra húsa þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

M&H Hverfisgata 92 húsin 2.jpg

„Þær umbætur sem hafa átt sér stað á síðustu árum við Hverfisgötu og endurreisn nærliggjandi gatna og torga hafa gert það að verkum að miðborgin og Hverfisgatan hafa endurnýjað aðdráttarafl sitt sem vettvangur fjölbreytni, veitinga- og kaffihúsaflóru, auðugs mannlífs, menningar og verslunar,“segir Ólafur og tekur jafnframt fram að mikill metnaður hafi verið lagður í hönnun og skipulag á íbúðunum þar sem notagildið og fagurfræðin hafi verið í forgrunni.

M&H Hverfisgata 92 2021.jpg

Stílhreinar og tímalausar innréttingar með blönduðum efnivið prýða íbúðirnar við Hverfisgötu 92.

Meira um þessar vönduðu eignir í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.