Gagnslaus þungavopnahernaður Seðlabankans

Seðlabankastjóri lýsir því yfir að hann líti svo á að íslenski Seðlabankinn sé í alþjóðlegu samstarfi til að vinna bug á verðbólgu um leið og hann tilkynnir risahækkun stýrivaxta.

Trúir seðlabankastjóri því að stýrivaxtaákvarðanir hér á landi, eða jafnvel í Bandaríkjunum, breyti einhverju um verðlagsþróun olíu og hrávara sem hafa hækkað mjög vegna heimsfaraldurs og innrásar Rússa Í Úkraínu.

Ef hann trúir því er full ástæða fyrir okkur öll að hafa þungar áhyggjur.

Ef hann trúir því ekki talar hann gegn betri vitund.

Seðlabankastjóri segir sjálfur að án húsnæðisliðarins sé verðbólga hér á landi 3,5 prósent, sem er innan vikmarka verðbólgumarkmiða bankans.

Í síðasta mánuði varð mesta hækkun húsnæðisverðs hér á landi í 16 ár. Þetta var eftir risavaxtahækkun Seðlabankans í byrjun maí. Bankinn hefur nú meira en sexfaldað stýrivexti sína á einu ári án þess að séð verði að það hafi nein áhrif á verðþróun íbúðahúsnæðis.

Ekki kemur þetta þeim sem til þekkja á óvart. Það voru ekki fyrstu kaupendur og almenningur sem þrýstu upp kaupverði íbúða. Aðal sökudólgurinn er lítið framboð. Vaxtahækkanir Seðlabankans bæta ekki úr því.

Undanfarin misseri hafa eignir, aðrar en fasteignir, lækkað í verði. Afleiðing þessa er sú að fjármunir leita frekar inn á fasteignamarkað en aðra eignamarkaði. Hið gráthlægilega er að vaxtahækkanir Seðlabankans valda einmitt lækkun á verði hluta- og skuldabréfa og stuðla þannig beint að aukinni eftirspurn eftir húsnæði og verðhækkunum.

Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjóri voru eins og flissandi skólakrakkar er þau kynntu risavaxtahækkun bankans í vikunni. Minntu þau nokkuð á kærulausa nemendur sem fara ólesnir í próf og stendur á sama hvort þeir falla eða ná. Þau viðurkenndu að þau vissu í raun ekkert hvað þau væru að gera og virtist standa á sama um alvarlegar afleiðingar peningastefnunnar. Sögðust sannfærð um að í framtíðinni yrðu haldin málþing um gjörðir þeirra nú um mundir og margir eftir á spámenn myndu án efa stíga fram.

Vaxtahækkanir Seðlabankans undanfarið ár hafa lent af fullum þunga á fólki, sem keypt hefur húsnæði undanfarin misseri, og eru að sliga barnafjölskyldur. Vaxtahækkanirnar hafa hins vegar frekar kynt undir verðhækkunum á fasteignamarkaði en slegið á þær.

Eftir á spámennirnir sem seðlabankastjóri talar um munu án efa benda á að nú hefði þurft að grípa til aðgerða til að draga úr eftirspurn, t.d. með því að setja hömlur á umsvif lögaðila á fasteignamarkaði og auka eiginfjárkröfur til þeirra sem eru að kaupa sína aðra eða þriðju eign. Skorti bankann heimildir til að beita slíkum tækjum er honum í lófa lagið að kalla eftir þeim.

Hvað sem líður orðum seðlabankastjóra um hlutverk bankans í alþjóðlegu samstarfsverkefni gegn verðbólgu blasir við að Íslenski Seðlabankinn rekur allt aðra vaxtastefnu en aðrir seðlabankar, líka þeir sem hafið hafa vaxtahækkunarferli. Mikið virðist því skorta á samræmingu aðgerða í þessu „alþjóðlega samstarfsverkefni“.

Flestir seðlabankar, aðrir en Seðlabanki Íslands, virðast átta sig á því að tímaskekkja er að raka 19. aldar peningastefnu á 21. öldinni. Beiting stýrivaxta sem vopni gegn annars vegar innfluttri verðbólgu og hins vegar fjárfestingabólu á íbúðamarkaði vegna flótta fjárfesta af hluta- og skuldabréfamarkaði er eins og að nota fallbyssu á rjúpnaveiðum. Fullkomlega tilgangslaust en veldur gífurlegu tjóni.

- Ólafur Arnarson