Gabríel segir þetta ástæðuna fyrir því að hann flúði

Gabríel Douane Boama, sem vakti ansi mikla athygli á dögunum fyrir að flýja úr dómssal Héraðsdóms Reykjavíkur, hefur nú tjáð sig um flóttann. Það gerði hann í viðtali á útvarpsstöðinni FM957.

Þar var hann spurður hvers vegna hann hefði flúið, og hann sagði ástæðuna vera þessa:

„Ég sá bara að löggurnar sem voru í dómnum voru bara sofandi á því þannig að ég tók bara sénsinn og ég vissi að ég myndi ná að flýja. Þannig þetta var bara win win því ég vissi að ég myndi ekki fá dóm fyrir þetta,“ sagði Gabríel sem sagðist meðvitaður um að hann myndi ekki ná að vera lengi á flótta, hann hafi hreinlega bara ætlað sér að „hitta strákana“.

Gabríel segist hafa komið sér fyrir aftur í bílskotti og farið upp í bústað með vinum sínum. Þá upplýsti hann að myndir sem hann setti á Instagram sem áttu að gefa til kynna að hann væri staddur í vesturbænum, hefðu haft það að markmiði að villa fyrir lögreglu.

Þá var hann spurður út í það að honum hafi verið lýst sem hættulegum svaraði Gabríel: „Nei, alls ekki. Ég er bara slakur gæi. Ég er almennilegur við alla sem eru almennilegir við mig.“ Þá vildi hann meina að hann væri saklaus af þeim brotum sem hann hefði hlotið dóm fyrir og væri sakaður um.