Fyrrum borgarstjóri reynir að liðsinna lánlausum minnihluta

„Lítið heyrist frá meirihlutanum,“ segir fyrrum borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær og fjallar um meintan fjárhagsvanda Reykjavíkurborgar.

Vilhjálmur er sá Íslendingur sem á lengstan feril að baki sem borgrfulltrúi í Reykjavíkurborg, 28 ár. Auk þess var hann borgarstjóri árin 2006 til 2007 þegar honum tókst að mynda meirihluta í borginni eftir langa eyðimörkurgöngu Sjálfstæðisflokksins, allt frá árinu 1994. Vilhjálmur var á góðri leið í embætti sínu þegar flokksfélagar hans með Hönnu Birni Kristjánsdóttur í broddi fylkingar, stungu hann í bakið að undirlagi pólitískra andstæðinga flokksins.

En það er önnur saga.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leggur þó lánlauum minnihluta lið eins og hann getur. Hann tala um „ógöngur“ og „óráðsíu“og segir í greininni að borgin hafi aldrei staðið jafn illa og nú.

Stöldrum nú aðeins við. Að sönnu er mikill taprekstur á Reykjavíkurborg eins og öðrum sveitarfélögum. Fjárhagsumhverfi þeirra er mjög erfitt um þessar mundir. Vilhjálmur veit hins vegar vel hvernig borgin var stödd árið 1991 þegar hann var sjálfur í borgarstjórn.

Davíð Oddsson borgarstjóri vissi þá manna best að réttur tími væri til að leggja á flótta frá borginni og inn í faðm ríkisbáknsins. Í borgarstjóratíð Davíðs var búið að eyða langt um efni fram með byggingu ráðhúss sem fór gersamlegafram úr fjárhagsáætlunum, endurbyggingu Viðeyjarstofu og ýmsu öðru sem kostaði mikla peninga sem Reykjavíkurborg átti ekki til á þeim tíma. Framkvæmt var fyrir yfirdráttarpeninga í bönkum og það tók langan tíma að komast út úr vandanum. Borgin hefði komist í greiðsluþrot ef ekki hefði verið fyrir þáverandi fjármálaráðherra, Ólaf Ragnar Grímsson, sem lét ríkissjóð hlaupa undir baga.

Davíð lá svo á að komast frá borgarmálunum að hann gaf sér ekki tíma til að tryggja samstöðu um eftirmann sinn og því fór sem fór. Reykjavíkurlistinn tók völdin og Ingibjörg Sólrún vann sigur á flokknum í þrennum borgarstjórnarkosningum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enn ekki komist til valda eftir árið 1994 ef undan er skilinn hluti af kjörtímabilinu frá 2006 til 2010 þegar Vilhjálmur myndaði meirihluta og varð borgarstjóri.

Reykjavíkurborg glímir nú við halla á rekstri sínum meðal annars vegna mikillar verðbólgu og vaxtaokurs í boði Seðlabanka Íslands. Vitanlega hefði meirihlutinn mátt bregðast við vandanum fyrr, en nú hefur hann kynnt 92 tillögur til sparnaðar sem minnihlutinn gerir lítið úr og einnig sjálfstæðismenn sem hafa kvatt sér hljóðs eins og Vilhjálmur gerir í grein sinni í dag. Þeir tala um að ekki dugi að spara með þeim hætti að taka á mörgum smærri atriðum eins og meirihlutinn leggur til.

Minnihluti sjálfstæðismanna og sósíalista talar um að spara þurfi 10 ef ekki 15 milljarða króna á ári hjá borginni. En þeir segja ekki hvernig þeir vilja gera það, slá einungis fram órökstuddum hugmyndum og afgreiða þetta stóra mál með upphrópunum og sleggjudómum. Til þess að upphrópanir af því tagi séu marktækar þarf að segja hvað býr að baki. Það er ekki gert.

Lánlaus minnihluti virðist ekki hafa neina burði til að rökstyðja gagnrýni sína. Mun líklegra er að reyndur fyrrum borgarfulltrúi og borgarstjóri eins og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson geti komið þeim til hjálpar með því að segja þeim hvernig unnt er að spara 10 og jafnvel 15 milljarða króna á ári í rekstri Reykjavíkurborgar. Hann þarf einungis að útskýra hvaða verklegar framkvæmdir á að skera niður og hvar á að draga verulega úr þjónustu við kjósendur í Reykjavík. Það væri þá á sviði skólamála, öldrunarmála, æskulýðsmála, íþróttamála, í málefnum fatlaðra eða á sviði forvarna svo eitthvað sé nefnt. Einungis með því að ráðast gegn stóru og dýru málaflokkunum tekst að spara þær stóru fjárhæðir sem nefndar hafa verið. Ekki með því að fækka um nokkur störf í ráðhúsinu eins og stundum er nefnt.

Nú er beðið eftir því að reyndir menn komi duglausum minnihluta til hjálpar og kynni raunhæfar sparnaðartillögur sem munar um.

- Ólafur Arnarson