Fyrirmyndarríkið

Heyrst hefur að Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra (já, hann er menntamálaráðherra) sé á leiðinni í mjög opinbera heimsókn til Kína ásamt fríðu föruneyti á kostnað okkar skattborgaranna. Náttfari veltir fyrir sér hvort Illugi og hans fólk umturni ekki alveg örugglega menntakerfinu hérna heima á klakanum eftir þessa heimsókn. Það er jú í anda stjórnarinnar sem hann situr í umboði fyrir að horfa fremur til einræðisríkja en lýðræðisríkja þegar kemur að fyrirmyndum í velferð þjóðanna. Að vísu finnst Náttfara svolítið sérstakt að Illugi þurfi að ferðast alla þessa leið til að kynna sér menntamálin, nema náttúrlega að Náttfari sé fremur þröngsýnn að eðlisfari og átti sig ekki á því að einræði geti af sér betri menntun, upplýsingu og fræðslu en lýðræði.