„Fyrir ári rakst ég á færslu á Face­book sem sat lengi í mér“

„Ef kóróna­vírusinn kenndi okkur að­eins eina lexíu var ég ekki í nokkrum vafa um hver hún yrði: Að láta af þeim ósið að líta á lífið sem keppnis­í­þrótt.“

Þetta segir einn vin­sælasti pistla­höfundur landsins, Sif Sig­mars­dóttir, í pistli í Frétta­blaðinu. Pistillinn hefur vakið mikla at­hygli. Sif segir að lífs­gæða­kapp­hlaupið hafi nú vikið fyrir súper-sótt­kví. Sif segir á einum stað:

„Fyrir ári rakst ég á færslu á Face­book sem sat lengi í mér. Í henni lýsti einkar skarp­skyggn Face­book-vinur á­hyggjum sínum af ó­hóf­legum kröfum sam­tímans til til­verunnar: - Þú þarft ekki bara að vera í leik­fimi – þú þarft að vera í formi eins og at­vinnu­maður. - Þú þarft ekki bara að vera í góðri vinnu – þú þarft að vera leið­togi. - Þú þarft ekki bara að eiga börn – þau þurfa að vera fram­úr­skarandi. - Þú þarft ekki bara að fara í frí – þú þarft að vera í Víet­nam. - Þú þarft ekki bara að borða hollt – þú þarft að vera vegan. - Þú þarft ekki bara að vera vel menntuð/aður – þú þarft doktors­próf. - Þú þarft ekki bara að stunda úti­vist – þú þarft að vera land­vættur. - Þú þarft ekki bara að eiga fal­legt heimili – það þarf að fylgja nýjustu tísku­straumum.“

Sif heldur á­fram:

„skila­boð berast fólki í sjálfsein­angrun að það eigi að nýta tímann í að skapa, skrifa, lesa, mála, prjóna, halda matar­boð á Zoom – hægeldað og líf­rænt – greiða sér á morgnana, hlaupa mara­þon á svölunum, sinna góð­gerðar­málum, taka doktors­próf í far­alds­fræði til að mega tjá sig um kóróna­vírusinn, hug­leiða, baka, skipu­leggja skápana og lakka gólfin.“

Þá segir Sif að lokum:

„Komir þú ekki úr sótt­kvínni með nýja há­skóla­gráðu upp á vasann, tvö ný tungu­mál á hrað­bergi og fjöl­skylduna upp­strílaða í heima­saumuðu hefur þér mis­tekist. Úr ein­angruninni í London vil ég hins vegar miðla af tveggja vikna reynslu og senda um­heiminum eftir­farandi ráð: Nýtið tímann í að vera en ekki gera. Komir þú úr sótt­kví með nokkur ný grá hár á höfði og ei­lítið skelkað bros á vör hefur þér tekist vel upp.“

Hér má lesa pistilinn í heild sinni.