Fylkingar skipast í Reykjavík

Spennan eykst vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík dagana 4. og 5. júní næst komandi. Einkum er tekist á um fyrsta sætið og ljóst að bæði Guðlaugur Þór og Áslaug Arna ætla sér sigur í einvíginu.

Nú er farið að bera á að frambjóðendur skipist í fylkingar. Úr herbúðum Áslaugar koma fyrirmæli um að kjósa í fjögur efstu sætin Áslaugu, Birgi Ármannsson, Hildi Sverrisdóttur og loks Friðjón Friðjónsson.

En sleppa Guðlaugi Þór alveg.

Guðlaugur Þór styður í sætin á eftir sér Diljá Mist Einarsdóttur og Brynjar Níelsson öðrum fremur. Svo virðist sem Sigríður Andersen lendi milli fylkinga sem gæti komið sér illa fyrir hana.

Hitt er svo annað mál að flokksmenn sem kjósa eru almennt ekki mikið fyrir að láta segja sér fyrir verkum og kjósa það sem þeim sýnist, gjarnan úr báðum fylkingum þegar þær myndast eins og í þessu tilviki.

Ætla má að kjörsókn geti orðið góð vegna þessara átaka.

En ekki er víst að samstaða fylkinganna verði mikil eftir prófkjörið.