Fylgi Sjálfstæðisflokksins í borginni er hrunið samkvæmt nýrri könnun

Sjálfstæðisflokkurinn fengi einungis fimm borgarfulltrúa kjörna ef marka má nýja skoðanakönnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið og birt er í dag. Könnunin var gerð dagana 4. til 18. mars og 1.250 kjósendur svöruðu.

Hér er því um stóra og marktæka könnun að ræða. Núverandi meirihluti heldur velli með 55 prósenta fylgi samtals og fengi 13 af 23 borgarfulltrúum. Bætti við sig einum fulltrúa frá síðustu kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn nyti stuðnings 20,7 prósenta kjósenda samkvæmt könnuninni en fékk 30,8 prósent fyrir fjórum árum undir forystu Eyþórs Arnalds, sem gefur ekki kost á sér áfram. Þriðjungur fylgisins og þrír borgarfulltrúar hafa tapast á kjörtímabilinu samkvæmt þessari könnun.

Samfylkingin er nú stærsti flokkurinn í borginni. Fengi 22 prósent og sex menn kjörna. Einum færra en síðast. Hástökkvari þessarar könnunar eru Píratar sem mælast með 16,4 prósenta fylgi og fengju fjóra menn kjörna.

Framsókn kæmi nú að mönnum, fengju tvo borgarfulltrúa en höfðu engan allt þetta kjörtímabil. Miðflokkurinn þurrkast út og það fylgi virðist færast yfir á Framsókn. Vinstri græn fengju tvo borgarfulltrúa og bæta við sig einum manni.

Flokkur fólksins fengi tvo menn kjörna, bætir við sig manni sem er þó mjög tæpur. Viðreisn vantar nokkur atkvæði upp á að halda sínum tveimur. Loks fengi Sósíalistaflokkur Íslands einn mann kjörinn eins og síðast.

Núverandi meirihluti hefði því þrettán borgarfulltrúa og öruggan meirihluta áfram. Örlög Sjálfstæðisflokksins virðast ætla að verða hin sömu og áður – að veita stjórnarandstöðunni í borginni forystu. Nú reyndar með mun minni styrk en á yfirstandandi kjörtímabili. Rúmlega 20 prósenta fylgi væri það lakasta hjá flokknum í Íslandssögunni. Fyrir þrjátíu árum hlaut flokkurinn 60 prósenta fylgi í borgarstjórnarkosningum. Þeir dagar eru nú órarlangt í burtu!

Eitt af því sem vekur athygli við þessa könnun er að Vinstri græn og Framsókn bæta við sig samtals nokkurn veginn því fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn tapar. Óhætt er að velta því fyrir sér hvort kjósendur séu farnir að líta á þessa ríkisstjórnarflokka sem eitt og hið sama eftir samkrull í vinstri stjórn síðustu ára þar sem engan mun sér lengur á stefnum og áherslum ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Einangrunarstefna ræður ríkjum, varðastaða um stöðnun og samstaða um útþenslu hins opinbera. 

Eru þeir ekki smám saman að renna saman í einn flokk – RÍKISFLOKKINN?

- Ólafur Arnarson