Furðar sig á því að börn séu send í skólann

„Nú má vera að það sleppi að láta börn sækja skóla við þessar að­stæður, en er víst að það sé á­hættunnar virði?“

Þessari spurningu er varpað fram í leiðara Morgun­blaðsins í dag en þar er meðal annars fjallað um þá stað­reynd að börn, bæði á leik­skóla- og grunn­skóla­aldri, séu send í skólann nú þegar sam­komu­bann er í gildi. Ekki liggur fyrir hver heldur á penna í um­ræddum leiðara en Davíð Odds­son er sem kunnugt er rit­stjóri blaðsins.

Leiðara­höfundur nefnir bréf sem skóla­stjórn­endur, kennarar og for­eldrar fengu frá land­lækni og sótt­varna­lækni þar sem mikil­vægi þess að börn sæktu skóla var á­réttað.

„Þeir sem fengu bréfið hljóta að velta því fyrir sér hvers vegna þeim sem eru í for­ystu fyrir sótt­vörnum er svo í mun að börn hópist saman og séu í ná­vígi hvert við annað og kennara sína á þessum veiru­tímum. Minnka líkur á að smit dreifist með því að börn fari í skóla? Varla.“

Leiðara­höfundur nefnir svo að stórir hópar hafi farið í sótt­kví vegna smita sem tengjast skólum. Nefnir hann í því sam­hengi for­sætis­ráð­herra en sonur hennar fór í sótt­kví þar sem starfs­maður í skóla hans reyndist vera smitaður.

„Sem betur fer virðist þetta hafa farið vel en aug­ljóst er af slíkum við­brögðum við smiti starfs­manns í skóla að hætta getur verið á að smit berist þegar skólar eru starf­ræktir í miðjum veirufar­aldri. Og til hvers? Vissu­lega þurfa börn að sækja skóla, en stafar námi þeirra mikil hætta af því þó að skóla­sókn, sem hvort eð er hefur verið stytt veru­lega, sé slegið á frest í fá­einar vikur og meiri á­hersla lögð á heima­námið þann tíma?“