Frosti um Auðar-málið: Minnir á myrku miðaldir

Frosti Logason útvarpsmaður með meiru segir að mál tónlistarmannsins Auðuns Lútherssonar minni sig á myrku miðaldir. Frosti ræddi mál Auðuns ásamt Gunnari Sigurðarsyni og Margréti Gústavsdóttur í Harmageddon í morgun. Mál Auðuns er mjög umdeilt um þessar mundir en konur hafa stigið fram og sakað hann um að vera gerandi. Auðunn, sem kallar sig Auður, sendi frá sér yfirlýsingu í vikunni þar sem hann hafnaði flökkusögum en viðurkenndi að hafa farið yfir mörk konu. Hefur hann verið rekinn úr Þjóðleikhúsinu og tekinn úr spilun í útvarpinu.

Margrét sagði að hún upplifði málið eins og réttarhöld í beinni útsendingu líkt og tíðkist í Bandaríkjunum. „Þetta er pínu þannig nema að réttarhöldin fara fram í kommentum, lækum og statusum. Það er einhvern veginn ekki neitt…“

Frosti sagði: „Það er að skapast óhugnanlegt ástand í samfélagi mannanna.“

Gunnar benti á að það væru litlar sem engar líkur á að svo margir tækju sig saman til að ljúga upp á einn einstakling. „Þetta er enginn fíflaskapur, þetta er háalvarlegt.“

„Ég er ekki í neinu sæti til að skera úr um þetta mál. Ég þekki þennan mann ekki neitt. Hef aldrei hitt hann. Bara séð hann í sjónvarpinu. En mér finnst að þessi afgreiðsla minna á myrkar miðaldir. Og eigi ekkert skylt við réttarríki.“

Margrét segir að skoðanir fólks séu mótaðar af einni hlið. „Fólk les frásagnir og fyrirsagnir. Það les bara status á Twitter og trúir öllu. Þetta er það sama með íþróttaálfinn.“

Vísar hún þar í mál Magnúsar Scheving sem sagði í hlaðvarpi að það væri ofbeldi að fá ekki kynlíf í sambandi, hann hefur beðist afsökunar á þeim ummælum. „Þetta er tveggja tíma viðtal og þetta er ein setning í stóru samhengi. Hann er að tala um skilgreiningar á ofbeldi. Tekur svo eitthvað dæmi.“

Gunnar sagði að sá tími væri liðinn þar sem menn gætu gengið um samfélagið og hagað sér illa í garð kvenna. Nú sé þetta galopnað.

Frosti segir að hann hafi áhyggjur af því að sum hegðun verði stimpluð sem ofbeldi að ósekju. „Sumt getur verið lögbrot. Síðan er eitt að vera einhvers konar drullusokkur. Það er engin greinarmunur á því núna á nauðgun og að vera drullusokkur. Það er búið að hræra þessu öllu saman í einn graut og afleiðingarnar þær sömu.“

Margrét segir að með því að afhjúpa hegðun geti fengið þá og aðra karlmenn til að hugsa sinn gang áður en þeir káfi á konum eða eitthvað þaðan af verra. Frosti segir að hann sé sammála henni. „Það gerist í báðar áttir líka, það eru fullar konur sem hegða sér alls konar á skemmtistöðum. Það kannski efni í aðra byltingu seinna.“