Freyja nefnir heimskulegasta kommentið: „Ég meina hvað er í gangi?“ | Myndband

Freyja Haraldsdóttir, stjórnmálakona og baráttukona fyrir réttindum fatlaðra, var metin hæf af Barnaverndarstofu á dögunum til að taka að sér fósturbarn. Þar með lauk langri baráttu Freyju, baráttu sem fór alla leið fyrir Hæstarétt Íslands.

Óhætt er að segja að margir hafi skoðun á því að Freyja geti nú tekið að sér fósturbarn. Athugasemdakerfi fjölmiðla loguðu í vikunni og sáu Landssamtökin Þroskahjálp meðal annars ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu vegna þess hvernig talað var um hana. Á Freyju er þó engan bilbug að finna eins og glögglega kom fram í Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi.

Í þættinum spurði Margrét Erla Maack hana meðal annars að því hvað sé asnalegasta eða heimskulegasta kommentið, eða jafnvel það fyndnasta, sem hún hefur rekist á í umræðunni á samfélagsmiðlum.

„Ég man eftir einu sem mér fannst alveg magnað og þá sagði einhver að barnið myndi örugglega kafna, það myndi bara borða dótið sitt og ég lægi bara þarna og gæti ekki gert neitt. Það var ótrúlega sorglegt komment en líka samt svo fyndið, ég er með aðstoðarfólk og ef ég eða þau kafna þá fæ ég aðstoð og það er til hlutur sem heitir sjúkrabíll og maður hringir á hann. Það gildir bara það sama eins og á öðrum heimilum. Það sem mér finnst kannski spaugilegt við þetta er hvað við erum alltaf í einhverjum hamfarahugmyndum, eru í alvöru venjuleg heimili bara svona, allir alltaf að kafna, ég meina hvað er í gangi?“