Freyja lætur Önnu Kolbrúnu heyra það: „Getum við plís sagt stopp“

Freyja Haraldsdóttir, baráttukona fyrir réttindum fatlaðra og fyrrverandi varaþingmaður, lætur Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, þingmann Miðflokksins, heyra það vegna greinar hennar um dag sjaldgæfra sjúkdóma sem haldinn var í gær.

Í grein sinni, sem birtist á vef Vísis, benti Anna Kolbrún á að hátt í 500 börn og ungmenni glími við sjaldgæfa sjúkdóma hér á landi.

Anna Kolbrún var í hópi hinna svokölluðu Klausturþingmanna sem sátu að sumbli á bar í miðborg Reykjavíkur í nóvember 2018. Upptökur af samtölum þingmannanna rötuðu í fjölmiðla en á þeim mátti heyra þingmenn sýna kvenfyrirlitningu og fordóma gegn fötluðum. Anna Kolbrún uppnefndi Freyju til dæmis í umræddum samtölum.

Freyja rifjar þetta upp á Twitter-síðu sinni og segir að Önnu Kolbrúnu væri nær að halda sig til hlés þegar fjallað er um börn með sjaldgæfa sjúkdóma.

„Klaustursþingkona skrifar grein um börn með sjaldgæfa sjúkdóma. Eins og hún hafi unnið sér inn pláss til þess að básúna um hver vandi þessara barna er og hvernig eigi að leysa hann. Þingkona sem gerðist uppvís um djúpstæðan ableisma. Getum við plís sagt stopp #klausturgate.“

Færsla Freyju hefur vakið talsverða athygli og deilir Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi henni á Twitter-síðu sinni, með orðunum: „Freyja treður sokki“.