Fregnir af andláti Önnu stórlega ýktar

Anna Kristjánsdóttir, íbúi á Tenerife, segir að fregnir af andláti hennar séu stórlega ýktar. Anna þykir með skemmtilegri pistlahöfundum landsins en hún heldur fylgjendum sínum á Facebook upplýstum um daglegt líf sitt í sólinni á Tenerife.

Anna hefur að undanförnu unnið að ákveðinni lífsstílsbreytingu og hafði hún sett sér markmið áður en marsmánuður gekk í garð að vera komin undir 90 kíló. Það gekk þó ekki alveg en Anna var 90,7 kíló síðasta dag febrúarmánaðar.

„Í gær birti ég færslu þar sem ég harmaði mjög að hafa ekki náð takmarki mínu fyrir marsmánuð. Af einhverjum furðulegum ástæðum snéru fjölmiðlar kvörtunum mínum upp í andhverfu sína og fóru að hrósa mér fyrir lélegan árangur minn. Ónefndur fjölmiðill hvar ágæt vinkona mín er meðal blaðamanna sá ástæðu til að endurbirta pistilinn, en vinkonunni varð á sú skissa að beita rangri sögn í fyrirsögninni og því kom pistillinn út eins og að ég hefði látist (Anna lést í stað Anna léttist).“

Anna segir í pistli á Facebook í morgunsárið að einhverjir grínistar á Facebook hafi verið fljótir að grípa þetta á lofti og gera grín að fyrirsögninni þar sem hæðst var að andláti hennar.

„Mig langar til að biðja umrædda vinkonu mína afsökunar á að hafa haft þetta einnig í flimtingum enda getur öllum orðið fingraskortur á lyklaborðinu, mér líka þótt ég sé nánast fullkomin að öðru leyti, en verður reyndar oft fótaskortur á tungunni, hvernig sem hægt er að útskýra það orðatiltækið.“

Anna segir að annars horfi ekki byrlega fyrir átakinu hjá henni, en Anna hefur verið dugleg að hreyfa sig auk þess að taka mataræði sitt í gegn.

„Ég var komin með svo mikla beinhimnubólgu að ég þurfti að hægja á mér (ekki hægja mér) og sleppti því að fara á fjall í gærmorgun eins og ætlunin hafði verið. Því varð mín daglega ganga gengin á jafnsléttu eða svo gott sem,“ segir Anna sem er þrátt fyrir allt ánægð með árangurinn til þessa. Úthaldið sé mikið betra en það var fyrir nokkrum vikum síðan.

„Þetta er kannski allt að koma, betri heilsa og meiri styrkur, eða svona næstum því, en fregnir af andláti mínu eru stórlega ýktar. Vonandi kemst ég á Stóruklif á miðvikudag, enda engin ástæða til að gefast upp fyrir einhverri beinhimnubólgu. Ég hlakka til að sjá vinkonu mína blaðakonuna í fríi hérna í Paradís enda með skemmtilegri manneskjum.“