Framsókn vann kosningarnar en tapaði stjórnarmynduninni

Í vikulegum pistli sínumí Fréttablaðinu á laugardegi, Í vikulokin, skrifar Ólafur Arnarson að Framsóknarflokkurinn virðist vera að klúðra góðum kosningasigri sínum í kosningunum í haust. Ólafur segir Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkinn í sameiningu gera lítið úr kosningasigri Framsóknar og telur að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, hefði getað gert kröfu um forsætisráðuneytið og einnig hefðu Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn getað skipt út vinstri grænum fyrir flokk sem auðveldara hefði verið að ná málefnalegri samstöðu með. Þess í stað setjist hann nú í ríkisstjórn undir forsæti formanns þess flokks sem tapaði kosningunum. Hér er pistillinn í heild:

„Framsóknarflokkurinn er á góðri leið með að klúðra góðum kosningasigri sínum og virðist ætla að láta sér það lynda að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur, láti eins og sigur Framsóknar hafi alls ekki átt sér stað

Framsókn bætti við sig 5 þingmönnum, fór úr 8 í 13 og stækkaði þingflokk sinn um meira en 60 prósent, á meðan VG minnkaði sinn þingflokk um tæp 30 prósent – úr 11 í 8 þingmenn.

Þrátt fyrir þetta afhroð Vinstri grænna fellst Framsókn á að VG leiði ríkisstjórnina áfram. Nú sem minnsti flokkurinn af þessum þremur. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ætla að sætta sig við hlutverk klappstýru í nýrri vinstristjórn undir forystu formanns sósíalistaflokks.

Vitanlega hefði verið í fullu samræmi við úrslit kosninganna að sigurvegarinn myndaði nýja stjórn og fengi embætti forsætisráðherra. Árið 2013 fékk Ólafur Ragnar Grímsson Framsókn stjórnarmyndunarumboðið, þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn væri stærstur á þingi, vegna þess að Framsókn vann stærsta sigurinn. Sama hefði að sjálfsögðu átt að gilda núna.

Engu er líkara en VG og Sjálfstæðisflokkur standi saman um að gera sem minnst úr sigri Framsóknar með því að koma í veg fyrir að flokkurinn leiði nýja ríkisstjórn. Raunar var engin þörf á þátttöku VG, sem kjósendur höfnuðu, í nýrri ríkisstjórn.

Hinir flokkarnir tveir gátu skipt þeim út fyrir flokk sem auðveldara hefði verið að ná málefnalegri samstöðu með.

Fyrst sigurvegari kosninganna sættir sig við niðurlægingu við stjórnarmyndunina, rennur hinn stóri sigur Framsóknar fljótt út í sandinn og nýtist ekki til framtíðar. Í pólitík verður að nýta meðbyr þegar hann gefst. Forysta Framsóknarflokksins er að gera stór pólitísk mistök núna.“