Framsókn sögð tvístígandi: Gagnrýnir „klækjastjórnmál“ gamla meirihlutans – Stutt í pattstöðu

Ekki hefur enn verið myndaður meirihluti í borginni þó að rúm vika sé frá kosningum. Morgunblaðið segir frá því í dag að stutt sé í pattstöðu í borginni vegna stöðunnar sem komin er upp.

Eins og greint var frá í gær útilokaði Viðreisn svo gott sem samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir að hafa opnað á þann möguleika í liðinni viku. Sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, að bandalag flokksins með Pírötum og Samfylkingu sé öflugt og kominn sé tími á að hefja formlegar meirihlutaviðræður með Framsóknarflokknum.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, brást við þessum tíðindum með því að segja að nú þyrfti hann að ræða við sitt bakland innan flokksins.

Morgunblaðið segir þó frá því að innan Framsóknarflokksins séu menn á báðum áttum með framhaldið. Þannig hafi baráttumál Framsóknar fyrir kosningar verið ákall um breytingar í borgarstjórn og það gæti reynst erfitt gagnvart kjósendum „að hlaupa beint í fangið á gamla meirihlutanum“ eins og það er orðað í forsíðufrétt Morgunblaðsins.

„Þá þyrfti vægi Framsóknar augljóslega að vera mjög mikið og sýnilegt,“ hefur Morgunblaðið eftir heimildarmanni sínum úr Framsókn. Þá kemur fram að það vari í taugarnar á Framsóknarmönnum að gamli meirihlutinn sé að þröngva Framsóknarflokkinn í meirihlutasamstarf með „klækjastjórnmálum“.