Framsókn ætlar sér stóra hluti í borginni: Mætir Björn Ingi Hrafnsson aftur?

Framsóknarflokkurinn ætlar sér vafalítið stóra hluti í borginni eftir afhroðið í síðustu sveitastjórnarkosningum þar sem flokkurinn kom engum manni að í borginni.

Fréttablaðið varpar í dag ljósi á stöðu mála hjá flokknum í kjölfar góðs árangurs flokksins í Alþingiskosningunum og fer yfir þá sem orðaðir hafa verið við framboð fyrir flokkinn.

Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður flokksins og fjölmiðlamaður til margra ára, er orðaður við framboð. Bent er á að hann hafi birt grein um lóðamál í Fréttablaðinu í gær. Karl var síðast framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar sem gaf út vefmiðla DV áður en Torg, sem meðal annars rekur Hringbraut, keypti útgáfuna.

Aðrir eru einnig nefndir til sögunnar. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, er orðuð við framboð. Hún fór að vísu yfir til Miðflokksins en í umfjöllun Fréttablaðsins er talið að hún muni hafa ratað aftur heim. Sigrún Elsa Smáradóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er einnig nefnd en hún dúkkaði upp á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir kosningarnar í september.

Þá er Björn Ingi Hrafnsson einnig nefndur en hann var eitt sinn borgarfulltrúi Framsóknarflokks en hefur einbeitt sér að öðrum verkefnum, einkum rekstri fjölmiðla, síðan þá. Í Fréttablaðinu kemur fram að hann hafi ekki veitt Fréttablaðinu afgerandi svar um mögulegt framboð en tók þó fram að hann væri ekki í neinum framboðspælingum.

Þá eru vonir sagðar bundnar við að Hrannar Pétursson, aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur, fari fram og leiði hugsanlega lista flokksins í Reykjavík. Þá herma heimildir Fréttablaðsins að Brynja Dan Þorgeirsdóttir hafi einnig fengið áskoranir um að fara fram. Loks hefur Þorvaldur Daníelsson, Valdi í Hjólakrafti, verið orðaður við framboð en hann var valinn Reykvíkingur ársins árið 2020 fyrir gott starf með ungmennum.