Framkvæmdastjóri ON sakar N1 um okur: „Það verður að stöðva - Strax“

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, fer hörðum orðum um N1 Rafmagn, samkeppnisaðila sinn á raforkumarkaði. Í grein sem birt er á Vísibýr Berglind til ímyndað ungt par sem er að kaupa sér íbúð.

„Um það leyti berst SMS: „Velja þarf raforkusala innan 7 daga.“,“ segir hún. „Unga parið okkar villtist á þessari leið og af því að það átti eftir að festa gólflistana þá gleymdist rafmagnið. Það var vissulega áfram í innstungunum en þar sem þau höfðu ekki valið sér rafmagnssala sjálf þá flutti ríkið viðskipti þeirra til eins sölufyrirtækisins. Þau fengu ekkert að vita af því en nafnið á sölufyrirtækinu birtist á reikningi í heimabankanum við næstu mánaðamót.“

Hún segir að ríkið velji fyrir það fyrirtækið með því að fara í listaverð rafmagnsalanna og sá sem er með lægsta meðalverðið yfir tiltekið tímabil fær sjálfkrafa viðskiptin. Berglind segir þetta gildru.

„Þau borga hæsta verðið á markaðnum, langhæsta verðið. Fyrirtækið sem sendir opinberu starfsmönnunum lægsta listaverðið er nefnilega búið að búa til sérstakan okurflokk fyrir unga parið og önnur þau sem ekki velja sér rafmagnssala sjálf,“ segir hún. „Í staðinn fyrir að borga listaverðið sem opinberu starfsmennirnir eru með í höndunum borga söguhetjur okkar verð sem er næstum tvöfalt hærra, 75% hærra en verðið sem var gefið upp til að verða þessara nauðungarflutninga raforkukaupenda aðnjótandi.“

Berglind heldur áfram:

„Og svona gengur þetta, mánuð eftir mánuð eftir mánuð, að ung pör á öllum aldri sem eru að byrja búskap, eða bara að flytja, eru þvinguð af ríkinu í viðskipti við fyrirtæki sem auglýsir lægsta verðið en rukkar svo hæsta verðið – langhæsta verðið hjá N1 rafmagn.“

Hún segir ríkið ekkert vilja gera:

„Ríkisvarða okrið sem nú viðgengst er ekki í boði. Það verður að stöðva. Strax.“