Framkvæmdastjóri Elko varar við blekkingarleik í tilboðum: „Fjöldi verslana fallið í þessa gryfju“

Óttar Örn Sigur­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Elko, segir fjölda verslana blekkja fólk með tilboðum í að­sendri grein í Frétta­blaðinu í dag.

Í grein sinni kallar Óttar eftir því að til­skipun Evrópu­sam­bandsins til að stemma stigu við því sem hann kallar blekkingar­leik verði inn­leidd hér á landi. „Best væri að 30 daga til­skipunin yrði inn­leidd sem fyrst,“ segir Óttar.

„Úti um allan heim nota verslanir til­boð sem markaðs­tól, en þau geta hins vegar verið vara­söm. Fjöldi verslana hefur fallið í þá gryfju að vera í­trekað og með stuttu milli­bili með sömu vörur á til­boði og komnar í þá stöðu að við­skipta­vinir kaupa bara á til­boðs­dögum. Í slíkum til­vikum geta til­boð unnið á móti í­mynd verslana og dregið úr trausti. Þarna er til­boðið hætt að vera til­boð, enda sömu vörur jafn­vel viku­lega á sama til­boði. Svona verð­lagning blekkir neyt­endur,“ segir Óttar.

Hann segir að Evrópu­sam­bandið hafi inn­leitt til­skipun til að bregðast við þessu sem er í sjálfu sér ekki flókin. „Hærra verðið (fyrra verðið í til­boðinu) á að vera lægsta verð vörunnar undan­gengna 30 daga.“

Óttar segir að þetta þýði að af­sláttur reiknast frá lægsta sölu­verði síðustu 30 daga og kemur í veg fyrir að sama til­boðið sé notað í­trekað um hverja helgi.

„Til­skipunin hefur ekki enn verið inn­leidd hér og þess má sums staðar sjá merki í fram­setningu vöru­verðs. Til­boðs­menning og traust til verslana kann því smám saman að bíða skaða án þess að við áttum okkur á því,“ segir Óttar og bætir við að ára­löng reynsla hans af smá­sölu­verslun hafi gert honum ljóst að traust við­skipta­vina sé eitt það mikil­vægasta sem fyrir­tæki hafa.

Bendir hann á að ELKO aug­lýsi til­boð í takti við 30 daga til­skipunina og að ELKO hafi tekið það skref fyrir skemmstu að setja í loftið verð­sögu á vef fyrir­tækisins. Þar geti við­skipta­vinir séð allar verð­breytingar aftur í tímann. Hvetur hann að lokum til þess að 30 daga til­skipunin verði inn­leidd sem fyrst öllum til hags­bóta.