Frambjóðandi Samfylkingarinnar gagnrýnir ungliðahreyfingar vegna skorts á samhug vegna Úteyjar

Dagbjört Hákonardóttir, persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar og frambjóðandi Samfylkingarinnar í komandi kosningum, gagnrýnir ungliðahreyfingar allra hinna flokkanna, nema Ung Vinstri græn, fyrir að sýna ekki samhug í tilefni af því að 10 ár eru liðin frá hryðjuverkunum í Útey þar sem 77 Ungir jafnaðarmenn í Noregi voru myrtir.

„22. júlí 2021 er að líða hjá án þess nokkur samhygð berist,“ segir Dagbjört á Twitter.

„Þarf ég að minna á að gerðar voru m.a. skotárásir á höfuðstöðvar Samfylkingarinnar og heimili borgarstjóra á þessu ári?“

Hún segir að ekki sé verið að biðja um mikið: „Ég vil bara sjá í verki að ungliðahreyfingar Íslands sameinist um ófrávíkjanleg grundvallargildi og styðji hvora aðra á erfiðum tímum. Þetta var samt erfiður dagur að mörgu leyti, og því verður sýndur skilningur. Hitt hefði hins vegar verið auðvelt og haft mikla þýðingu.“

Fleiri hafa tekið í sama streng, þar á meðal tónlistarmaðurinn Svavar Knútur sem segir á Twitter: „Var við minningarathöfn um fjöldamorðin í Útey áðan. 10 ár síðan. Sló mig dálítið að sjá enga fulltrúa frá öðrum ungmennafylkingum stjórnmálaflokka en UJ. Er sjálfur utan flokka en hefði verið mjög til í að sjá þverpólítíska samstöðu þarna. Ef einhvern tíma var tilefni. Sorglegt.“

Margir taka undir með honum. Elín Jónasdóttir veðurfræðingur segir svo: „Æ ég vissi ekki af þessu.“