Einar Benediktsson skrifar

Frábær læknishjálp

16. mars 2017
08:06
Fréttir & pistlar

 Á yngri árum mínum þótti það hálfgerður brandari að segja að maður ætti, ef Guð lofaði, að komast á eftirlaun árið 2001. Og þá er það í alvörunni furðuefni að vera uppi á öðrum tug 21. aldarinar og  það á ég, krabbameinssjúklingur á batavegi , vissulega góðum læknum og heilbrigðisþjónustu að þakka. Ég greindist með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein (BHKK) haustið 2009 en hafði þá verið í árlegu eftirliti frá því 2000 með PSA blóðprófi, þreifingu, ómskoðun og sýnatöku. Um var lengi að ræða nokkuð hækkað PSA gildi og stækkun kirtilsins sem reyndist góðkynja. Bróðir minn Oddur greindist með erfitt BHKK 2005 og ég var þar með í áhættuhópi. Oddur lést 2010.  Haustið 2009 fór þetta úr böndunum hjá mér og ég mældist með PSA 25 og sk Gleason greiningu 9. Talið er að mikil hætta sé á ferðum ef PSA er yfir 20 og Gleason yfir 8.

    Við sem höfum greinst með BHKK  erum í hópi þeirra um 220 íslensku karla sem þetta hendir árlega. Um 50 látast árlega af völdum sjúkdómsins. Þótt þessi tölfræði valdi vafalaust öllum áhyggjum hylur hún veruleika einstaklinganna sem greinast og er í raun skelfilegur. Enginn á von á að læknirinn segi: Mér þykir þetta leitt en þú ert með krabbamein.  Viðkomandi standa skyndilega andspænis því að þurfa kynnast meðferðarúrræðunum: vöktuð bið, geislameðferð eða aðgerð. Það sem ákveðið var fyrir mig var geislameðferð.  Ég fékk sk IMRT High Dose geislun eða 76Gy og 2Gy í hvert skipti og þýddi það 38 komur í tækin á Krabbameinadeild LSH. Þetta tók tæpt kortér í geislun og var ég lengst af þarna kl 1:30 fimm virka daga vikunnar í apríl- júní 2010. Frá byrjun og samhliða var hórmónahvarfsmeðferð með tveim lyfjum.  Geislameðferðin er sársaukalaus en aukaverkanir voru aðallega þreyta og taugastrekkingur. PSA-ið fór í 2.5 í meðferðinni, varð 0.05  við lokin og var þar enn í ársbyrjun 2012. Er enn á mjög minnkuðum lyfjaskammti, reyndar með hliðarverkunum sem mér eru ekki til ama. Þetta gat með öðrum orðum ekki verið betra

       Þessi sjúkrasaga mín er smámál samanborið við þann mikla harmleik sem varð með Odd bróðir og oft grúfir yfir mér. Hvar skildi þar milli feigs og ófeigs? Er þar nokkurn lærdóm að draga í sambandi við forvarnir ? Hér skal þá fullyrt það augljósa, að það er aðeins vegna reglulegra töku PSA gildanna að það er í tæka tíð hægt að hjálpa mér. Meinið var staðbundið í kirtlinum og þá eru ráð til að eyða því. Þannig á ég frábærum læknum og geislameðferðartæki LSH bókstaflega líf mitt að launa. Með bróðir minn fór þetta á annan veg þótt allt væri gert til að hjálpa honum. Þegar Oddur var greindur hafði meinið tekið að breiðast út í beinin frá BHK. Hann kom of seint af því að hann vissi ekki betur og hann lést á líknardeildinni 73 ára að aldri.

 Tekið skal undir það sem Eiríkur Jónsson, þvagfæraskurðlæknir, segir í ágætu fræðsluriti Krabbameinsfélagsins um BHKK, algengasta krabbamein íslenskra karla:  „Einkennalausir karlmenn geta að sjálfsögðu leitað læknis til að láta skoða sig og rannsaka með tilliti til þessa krabbameins. Mælt er með því að karlmenn fari í skoðun eftir fimmtugt, en eftir fertugt ef sterk ættarsaga um krabbameinið er fyrir hendi. Mikilvægt er þó að að karlmenn hafi í huga hvaða ákvarðanir þarf að taka ef sjúkdómurinn greinist hjá þeim á byrjunarstigi:“  Mikinn  fróðleik um BHKK er að finna á heimasíðu félagsins: framfor.is, sem er í þróun

    Íslenskt samfélag bregst vel við ýmsum skyldum sínum. Árangur af mörgum fjársöfnunum til mannúðar- eða þjóðfélagsþarfa er til sóma. Ég leyfi mér að  trúa því að nýbyrjuð fjársöfnun  okkar félaganna í Framför krabbameinsfélagi karla nái árangri vegna afar brýnna tækjakaupa fyrir krabbameinslækningar á Landspítalanum. Tækin fyrir þessar geislalækningar nefnast  línuhraðlar. Tvö slík tæki eru á spítalanum og eru í umsjá ágætra sérmenntaðra hjúkrunarfræðinga og fá daglega um 40-50 sjúklingar meðferð í þeim. Brýn nauðsyn knýr á um endurnýjun á eldri línuhraðlinum en þessi tækjabúnaður er algjör forsenda fyrir áframhaldandi góðum árangri í meðferð krabbameinssjúklinga á Íslandi. Svo er komið að eldra tækinu, sem er komið all langt yfir endingartíma sinn, er haldið gangandi með starfi hinna frábæru tæknifræðinga spítalans. Nú er hafin söfnun og er óskað eftir framlögun en söfunarreikningurinn .......... er í vörslu LSH og renna öll framlög óskipt til kaupa á nýja línuhraðlinum.

   Félagið Framför varð til fyrir frumkvöðulsstarf  bróður míns dr. Odds Benediktssonar og honum hugarfóstur,  þar til hann lést eftir hetjulega baráttu við hinn mikla vágest.