Forstjóri VÍS skoraði fyrsta mark Víkings í Garðinum

Í spjalli þeirra Helga Bjarnasonar og Jóns G. í kvöld á Hringbraut er komið inn á knattspyrnuferil Helga en hann lék með Leikni, Fram og Víkingi í knattspyrnu og varð Íslandsmeistari með Víkingi haustið 1991 þegar liðið sigraði Víði í Garðinum 3-1. Sá leikur fór fram í Garðinum. Þetta var síðasta umferðin og Íslandsmeistaratitilinn undir. Helgi braut ísinn fyrir Víkinga í leiknum og skoraði fyrsta mark liðsins en það varð Íslandsmeistari á markahlutfalli í keppni sinni við Fram um titilinn með einu marki. Fram sigraði ÍBV á sama tíma í Laugardalnum 3-0. En það dugði ekki; liðið hefði þurft að vinna 5-0 til að fá bikarinn. Svo mikil var spennan að þyrla sveimaði um með bikarinn þegar leið á leikina; færi hann í Garðinn eða Laugardalinn?

Þetta mikilvæga mark í leið félagsins að titlinum varð samt ekki mjög umtalað þennan dag fyrir 31 ári því félagi hans Björn Bjartmars kom inn á og skorað tvö mörk.

„Það muna nú flestir eftir þessum leik og Birni Bjartmars,“ segir Helgi kómískur í þættinum þegar hann rifjar þennan æsispennandi leik upp. „Ég skoraði tvö mörk á ferlinum í meistaraflokki og helmingur þeirra var í þessum leik,“ bætir hann við brosandi. „En þetta var geggjað hjá Bjössa; titillinn vannst og þyrlan kom með bikarinn.“

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar á sunnudagskvöldum kl. 21 og 23 og endursýndur á tveggja tíma fresti fram að kvöldmat á mánudögum.