Forseti borgarstjórnar ekki sátt við Pál vegna skrifa um Helga Seljan

Sterkar skoðanir eru á lofti um skrif ofurbloggarans Páls Vilhjálmssonar um geðræn vandamál Helga Seljan í kjölfar ofsókna Samherja. Skrif Páls hafa verið víða fordæmd en Páll sjálfur skilur ekki vandamálið, telur hann lítið að marka fréttaflutning RÚV í ljósi heilsu Helga. Nú síðast hefur kastljósið beinst að Fjölbrautaskólanum í Garðabæ þar sem Páll starfar við kennslu, heyrast nú raddir um að Páll skuli missa vinnuna vegna skrifa sinna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kvartað er til FG vegna skrifa Páls, það var gert árið 2015 þegar hann skrifaði um nauðganir og aftur árið 2017 þegar hann skrifaði um húðlit.

Einar Steingrímsson stærðfræðingur sagði á Facebook að varhugavert væri að reka Pál úr vinnunni vegna skoðana sinna utan vinnu. Stjörnublaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson sagði að hann ætlaði ekki að hafa skoðun á þessu máli en það mætti standa mun betur vörð um tjáningarfrelsið en nú sé gert.

„Það er í stórkostlegri hættu eins og dæmin sanna. En það sem gerir þetta snúið, þó ég ætli ekki að hafa hina helgu bók fyrir því að auga fyrir auga — tönn fyrir tönn, sé málið, er að Páll sneiðir einmitt sjálfur að Helga og hans störfum. Býsna harkalega og þarna er að finna nokkuð sem ég held að hljóti að mega heita borðleggjandi meiðyrði:

„Burtséð frá bataferlinu er í meira lagi undarlegt að geðveikur maður fari með víðtækt dagskrárvald á ríkisreknum fjölmiðli, RÚV. Geðveikur Helgi skipuleggur í áravís skandal hægri vinstri, skáldar ef ekki vill betur til. Sá geðveiki fær fullt umboð yfirstjórnar RÚV til að flytja áróður klæddan í búning frétta.“,“ segir Jakob og vitnar í Pál.

Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, er ekki sátt við Pál vegna skrifa hans um Helga Seljan:

„Það getur verið málefnalegt, ef tjáning hans er með þeim hætti að sennilegt sé að ef hann viðhefur sömu skoðanir í starfi sínu, þá geti það bitnað illa á samstarfsfólki, eða sérstaklega ef hann vinnur með börnum,“ segir hún.

„Hvernig á barn sem er kannski með geðræn vandamál að upplifa að það njóti jafnræðis í tíma hjá honum? Hvernig eiga foreldrar að treysta því að barnið fái sanngjarna meðferð og njóti jafnræðis?“

Alexandra segir að auðvitað eigi fólk að geta tjáð sig en tjáningu geti líka fylgt afleiðingar:

„Ég reyndar veit ekki hvort mér finnst hann hafa gengið svo langt að vinnuveitandi hljóti að grípa til aðgerða, en það er amk. ekki fáránlegt að skoða það. Fá á hreint hvort hann virði fjölbreytileika nemendahópsins.“

Kristinn Sigurjónsson, sem hefur verið rekinn úr kennarastarfi vegna umdeildra skrifa utan vinnu, segir:

„Það er alltaf stutt í ritskoðunarviljann. Hann er svo varinn með góðum ásetningi.“