Missti báða foreldra sína úr COVID-19: „Ég vona bara að þau séu á góðum stað“

Tveir karlmenn og tvær konur hafa nú látist af völdum COVID-19 kórónaveirunnar hér á landi en tilkynnt var í dag um tvö andlát á Landspítala. Einn lést á Húsavík á meðan hin dauðsföllin urðu í Reykjavík.

Annar þeirra sem lést síðasta sólarhring var eiginmaður Jóninnu Margrétar Pétursdóttur sem lést 23. mars síðastliðinn á Landspítala. Jóninna var 71 árs á meðan eiginmaður hennar var 75 ára en hvorugt hafði sýnt einkenni þar til þau voru flutt á spítala.

Sonur hjónanna greindi upprunalega frá andláti móður sinnar í Facebook hópnum Kórónuveiran COVID-19. Faðir hans varð síðan alvarlega veikur af völdum veirunnar.

„Ég er eiginlega búinn með orðin, ég vona bara að þau séu á góðum stað og líði vel saman. Ég elska ykkur bæði,“ segir sonurinn í viðtali við Stundina í kjölfar andlátsins.

Alls eru rúmlega þrettán hundruð manns sýktir af veirunni hér á landi og eru 44 á sjúkrahúsi. Sýni hafa verið tekin úr hátt í 21 þúsund manns en 99 smituðust á síðasta sólarhring.

Að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis hefur tekist vel að sveigja á vexti faraldursins en fjöldi þeirra sem eru alvarlega veikir og hafa verið lagðir inn á spítala fylgir verstu spá.

Þórólfur frétti sjálfur ekki af andlátinu fyrr en um hádegi í dag en hann sagði á upplýsingafundi í dag að hann kæmi til með að ræða við Landspítala um málið.