Fór Guðni Ágústsson öfugu megin framúr?

Guðna Ágústsson, fyrrverandi þingmann og ráðherra Framsóknar, dreymir um áframhaldandi vinstri stjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Hann telur fátt geta ógnað núverandi stjórn ef marka má blaðagrein sem birtist eftir hann í dag. Guðni fjallar skilmerkilega um alla flokka og væntanleg framboð í komandi kosningum og gefur þeim einkunnir sínar sem byggjast á ótakmarkaðri óskhyggju. Hann telur að fátt geti ógnað áframhaldandi stjórnarsamstarfi.

Hinn annars glöggi stjórnmálamaður og skemmtikraftur gleymir reyndar nokkrum mikilvægum atriðum. Fyrst skal telja kjósendur. Ólíklegt er að margir kjósendur deili þeirri sýn með Guðna að vinstristjórn Katrínar verði endurkjörin. Stjórnarflokkarnir hafa ekki náð meirihluta samtals í einni einustu skoðanakönnun það sem af er kjörtímabili. Stjórnin í heild mælist ávalt með mun meira fylgi en flokkar hennar samtals. Skýringin á því er augljós. Þegar kjósendur rýna í mannval, stefnumál, orð og efndir einstakra flokka, þá fallast þeim hendur. Og skyldi engan undra.

Framsókn er eini stjórnarflokkurinn sem lætur sér vel líka samstarfið enda er hann vanur að aka seglum eftir vindi og vinna jafnt til hægri og vinstri – „opinn í báða enda“, eins og sagt var honum til háðungar í gamla daga. Vitað er að mikill fjöldi sjálfstæðismanna tekur út þjáningar fyrir að hafa leitt formann sósíalista til öndvegis í ríkisstjórninni. Formaður þeirra hefur aldrei áður verið forsætisráðherra á Íslandi. Og verður vonandi ekki aftur. Því til viðbótar sárnar mönnum að horfa upp á Steingrím J. Sigfússon gegna virðingarstöðunni forseti þingsins í ljósi þess að hann var maðurinn á bak við lúalega aðför að Geir Haarde, þáverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, þegar hann var dreginn fyrir Landsdóm og niðurlægður þar, fyrstur manna á Íslandi. Er ekki kominn tími til að draga Svandísi Svavarsdóttur fyrir Landsdóm til að láta hana svara fyrir allt bóluefna-og sóttvarnarklúðrið sem veldur þjóðinni ómældu tjóni?

Bakland Vinstri grænna logar vegna óánægju með að flokkurinn skuli vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Katrín mun ekki fá stuðning innan flokksins til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn eða Miðflokk eftir kosningar. Guðni verður að gera sér ljóst að kosningarnar munu snúast um að koma Vinstri grænum frá völdum á Íslandi en ekki að uppfylla óskhyggju Guðna um áframhaldandi stjórnarsamstarf núverandi ríkisstjórnarflokka. Ætla má að Katrín leggi allt undir til að freista þess að mynda ríkisstjórn með Samfylkingu, Flokki fólksins, Pírötum og Sósíalistaflokki Gunnars Smára. Það gæti gerst. Það yrði nú meiri samsuðan.

Í grein sinni tók Guðni algerlega rangan pól í hæðina og fór villur vega. Hann getur ennþá snúið af rangri leið og komist til baka út úr þokunni.

Guðni Ágústsson vill flokki sínum vel og reyndar allri þjóðinni. Hann ætti því frekar að leggja lóð sitt á þá vogarskál að losa landsmenn við Vinstri græna og hvetja sitt fólk í Framsókn til að vinna með lýðræðisflokkum að endurreisn samfélagsins eftir hremmingar veirunnar - og vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur.