Fólk verði að koma tímanlega til landsins ef það vill eyða jólunum með fjölskyldunni

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að það væri mikilvægt að fólk sem dvelur erlendis komi tímanlega til landsins ef það vill eyða jólunum með fjölskyldunni.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá því í síðustu viku að sýnataka á landamærunum yrði gjaldfrjáls eftir frá 1. desember næstkomandi en Vísir greindi frá því fyrir helgi að ríkisstjórnin hafi samþykkt að óbreytt fyrirkomulag verði á landamærunum þar til 1. febrúar 2021. Þannig getur fólk valið milli 14 daga sóttkví eða að fara í tvöfalda skimun með sóttkví á milli.

Í ljósi þess að fyrirkomulagið verður óbreytt sagði Víðir að fólk þyrfti að gera ráð fyrir fimm til sex daga sóttkví við komuna til landsins og þannig þyrfti fólk að koma heim í síðasta lagi 18. desember ef það vill vera öruggt með að geta eytt aðfangadegi með fjölskyldunni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi enn fremur frá því á fundinum að vel væri fylgst með komum farþega til landsins og að mikilvægt sé að halda því áfram til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar.

Hægt er að horfa á upplýsingafundinn í heild sinni hér fyrir neðan.