Fólk gæti log­ið til að losn­a fyrr úr ein­angr­un

Sótt­varna­læknir á­kvað í gær að breyta reglum um ein­angrun fyrir þá sem eru smitaðir af Co­vid en eru bólu­settir og hraustir. Fólk sem upp­fyllir þessi skil­yrði og hefur verið ein­kenna­laust í alla­vega þrjá daga þarf nú að­eins að vera í ein­angrun í 10 daga í stað 14 eins og venjan hefur verið.

Í kjöl­far þessara fregna hefur síminn vart stoppað á Co­vid-göngu­­deildinni svo starfs­­menn urðu að biðja fólk að bíða ró­­legt því þeir sem eiga að losna fyrr fá sím­tal um það frá lækni.

Gylfi Þór Þor­­steins­­son, um­­­sjónar­­maður far­­sótta­húsa, segist í sam­tali við Vísi hafa fundið fyrir mikilli for­vitni meðal gesta um nýju reglurnar, sér­­stak­­lega er­­lendra ferða­manna í ein­angrun, sem vilja komast aftur til sinna heima­landa.

„En það er náttúru­­lega bara með þau eins og aðra að það er læknir eða Co­vid-deildin sem metur hvert til­­­felli fyrir sig,“ segir Gylfi.

„En svo er það náttúru­­lega þannig að við verðum bara að treysta því að fólk sé ekki eftir þessa breytingu að ljúga til um heilsu sína, sem að gæti verið freistandi fyrir ein­hverja, en þeir væru þá um leið að setja sjálfa sig og nær­um­hverfi sitt í aukna hættu og það viljum við auð­vitað alls ekki,“ segir hann.

Gylfi segist ekki hafa miklar á­hyggjur af því að fólk fari að ljúga til um heilsu sína en segir það við­búið að ein­hverjir muni reyna það.

Í dag greindust 145 manns með kóróna­veiruna innan­lands sem er hæsti fjöldi frá upp­hafi. Hjör­dís Guð­munds­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Al­manna­varna, býst við því að já­kvæðum smitum muni fjölga enn meira eftir verslunar­manna­helgi.

Í sam­tali við RÚV segir hún að smitrakningar­teymið hafi vart undan við að rekja smit og hringja í út­setta, og biðlar til fólks að fara í sjálf­skipaða sótt­kví, telji að sig hafa verið út­sett fyrir smiti.

„Ekki bíða eftir að fá sím­tal frá rakningar­teyminu ef þú um­gekkst náið ein­hvern smitaðan,“ segir Hjör­dís.

Sótt­varnar­yfir­völd óttast að um miðja næstu viku gætum við séð fram á nýjan met­fjölda smita, auk þess sem álag á heil­brigðis­kerfið gæti aukist veru­lega, því þeir sem fá al­var­leg ein­kenni verða oftast veikir um tíu dögum eftir smit.