„Fólk er spurt: Guð, hvernig þorir þú að æfa hjá henni?“

16. maí 2020
10:58
Fréttir & pistlar

Guðríður Torfadóttir, eða Gurrý eins og landsmenn þekkja hana flest, segir álit annarra á henni ekki skipta máli þar sem hún viti hver hún er. „Ég hef gert flotta hluti og hjálpað fjölda fólks ná árangri,“ segir Gurrý í einlægu helgarviðtali hjá DV en hún hefur áratugareynslu sem líkamsræktarþjálfari og var meðal annars þjálfari í raunveruleikaþáttunum Biggest Loser Iceland.

Hún greinir frá því að hún hafi óttast að mistakast þegar hún ákvað að opna sína eigin stöð en hún opnaði Yama heilsurækt síðastliðið haust. „Ég var hrædd við þetta. Annars hefði ég verið búin að opna nýja stöð fyrir löngu. Ætli þetta undirstriki ekki að ég sé venjuleg kona,“ segir Gurrý í samtali við DV.

Gurrý var framkvæmdastjóri Reebok Fitness frá opnun til ársloka 2017.

Hún hafði verið framkvæmdastjóri Reebok Fitness frá opnun til ársloka 2017 en þá var hún komin í kulnunarástand vegna vinnuálagi og persónulegrar gagnrýni á opinberum vettvangi.

Hún segir fólk sem ekki þekkir sig hafa ákveðna ímynd af henni sem hún væri til í að losna við. „Fólk er spurt: Guð, hvernig þorir þú að æfa hjá henni?“ segir hún og bætir við að fólk haldi að hún sé hörð og tillitslaus. „Fyrst særði þetta mig því ég er ekki þannig, en ég veit hvaðan þetta kemur.“

„Ég segi alveg það sem mér finnst, en ég er passlega næs ... En ég hef heyrt margt ljótt um mig, sérstalega frá konum,“ segir Gurrý. „Sumir eru bara fífl,“ bætir hún við aðspurð um hver ástæðan gæti verið.

Hægt er að nálgast viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði DV.