Fólk er að deyja en Per­sónu­vernd segir: „Við af­greiðum þetta eftir helgi“

Glæpur

Sú far­sótt sem gengur nú yfir heiminn á enga sína líka. Hún hefur breiðst út eins og eldur í sinu og veldur ringul­reið alls staðar og þjáningu og dauða. Við­brögðin við henni eru slík að annað eins hefur aldrei sést. Lönd hafa lokað landa­mærum sínum, skólum hefur verið lokað og öllum sam­komu­stöðum og víða er út­göngu­bann í gildi. Markaðir hafa hrunið og efna­hagur landsins okkar er að kikna. Heimurinn eins og við höfum þekkt hann er horfinn og við okkur blasir ný til­vera og ógn­vekjandi.

Eitt af því sem hefur vantað hjá þeim sem eru að sem eru að hanna að­gerðir til þess að hægja á far­aldrinum úti í heimi eru upp­lýsingar um það hversu víða veiran finnst í þeim hluta sam­fé­lags sem ekki er talinn í hættu. Við erum eina landið í heimi sem í dag býr að slíkum upp­lýsingum vegna skimunar Ís­lenskrar erfða­greiningar. Sú skimun var gerð í þeim til­gangi einum að gagnast þeim sem vinna við að hefta far­aldurinn hér á landi.

Nú eru yfir­völd víða um heim farin að biðja um upp­lýsingar. Til þess að koma upp­lýsingunum á fram­færi á þann máta að heimurinn geti tekið mark á þeim verður að birta þær í vísinda­grein í tíma­riti sem er reiðu­búið til þess að láta rit­rýna hana hratt og birta hana strax að því loknu. Rit­rýnin er trygging heimsins fyrir því að það sem verður birt sé satt og rétt. New Eng­land Journal of Medicine hefur beðið okkur að birta hjá sér þessar niður­stöður og heitið því að gera það mjög hratt.

Skimunin okkar var ein­fald­lega þjónusta við heil­brigðis­kerfið en til þess að setja niður­stöðurnar í sam­hengi sem hægt væri að setja í vísinda­grein urðum við að sækja um leyfi til vísinda­rann­sóknar sem við gerðum. Við sendum um­sókn til Vísinda­siða­nefndar á föstu­daginn sem af­greiddi hana á nokkrum klukku­tímum. Síðan sendi nefndin af­greiðslu sína á um­sókninni til Per­sónu­verndar. Hlut­verk vísinda­siða­nefndar er að veita leyfi til rann­sókna en hún ber á­byrgð á því að meta hvað sé unnið við það sem er fórnað við rann­sóknina, hlut­verk Per­sónu­verndar er ein­fald­lega að ganga úr skugga um að rann­sóknin og fram­kvæmd hennar brjóti ekki í bága við per­sónu­verndar­lögin.

Þegar við höfðum sam­band við full­trúa per­sónu­verndar á föstu­daginn sagði hann að Per­sónu­vernd myndi af­greiða um­sóknina eftir helgina. Það hafði engin á­hrif á þá virðu­legu stofnun að fjöldi smitaðra í heiminum myndi þre­faldast frá föstu­degi til mánu­dags og hug­myndin væri að reyna að nota þá inn­sýn sem fengist við að skoða niður­stöður frá Ís­landi til þess að hafa á­hrif á að­gerðir til að hamla út­breiðslu.

Þessi af­staða Per­sónu­verndar er með öllu ó­skiljan­leg og al­gjör­lega úr takti við af­stöðu manna í sam­fé­laginu al­mennt sem eru að snúa bökum saman í bar­áttunni og þurfa enga hvatningu til þess að vinna dag og nótt og setja sjálfa sig í smit­hættu.

Per­sónu­vernd vinnur ekki um helgar þótt ekki bara Róm heldur allar borgir heimsins brenni. Þess ber líka að geta að Evrópu­sam­bandið sem gaf út þá reglu­gerð sem per­sónu­verndar­lög okkar byggja á hefur gefið til kynna að per­sónu­verndar­sjónar­miðin verði að víkja að því marki sem sú nauð­syn krefur að rann­saka far­aldurinn.

Með þessari af­stöðu sinni er Per­sónu­vernd að fremja glæp. Fólk er að veikjast, fólk er að deyja, heimur að hrynja og Per­sónu­vernd segir:

„Við af­greiðum þetta eftir helgi.“

Það er ljóst að margir munu missa vinnuna vegna far­aldursins. Skyldu ein­hverjir þeirra vinna hjá Per­sónu­vernd?