Flytur Skatturinn í Bændahöllina á Hótel Sögu?

Skatturinn hefur að undanförnu leitað að lóð fyrir tíu þúsund fermetra stórhýsi undir alla starfsemi skattyfirvalda. Um væri að ræða húsnæði fyrir Ríkisskattstjóraembættið, Skattrannsóknarstjóra og skattstofur fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Áskilið er að lóðin sé miðsvæðis í höfuðborginni.

Mörgum þykir með ólíkindum að báknið í kringum skattheimtu landsmanna sé með þeim hætti að embættin þarfnist tíu þúsund fermetra húsnæðis utan um starfsemi sína. Það er svo sem í stíl við annað hjá ríkinu þar sem allt þenst út á sama tíma og sjálft atvinnulíf landsmanna dregst saman með ógnvænlegum hraða.

Vegna veiruvandans hafa flest hótel landsins verið hálftóm það sem af er ári og mörg þeirra komin í vanda eftir að landinu var lokað. Því hefur sú hugmynd vaknað að Skatturinn kaupi eitthvað af stóru hótelunum sem standa nú nær ónotuð og breyti í höfuðstöðvar skattheimtunnar í landinu.

Vitað er að Bændahöllin sem hýsir Hótel Sögu er til sölu. Bændasamtökin þurfa helst að selja þetta glæsilega hús vegna mikils taprekstrar og fjárhagsvanda. Stórhýsið mun vera um 14 þúsund fermetrar að stærð þannig að öll embætti skattheimtunnar ættu auðveldlega að komast þar fyrir.

Bændahöllin er átta hæða hús þar sem einn þekktasti veitingastaður landsins, Grillið á Hótel Sögu, hefur starfað á efstu hæð. Ekki væri ónýtt fyrir skattheimtufólkið að hafa mötuneyti sitt þar með útsýni yfir borgina. Komi til þessara kaupa, þá væri húsið ekki lengur nefnt Bændahöllin heldur að sjálfsögðu Skattahöllin.