Flutti til Íslands fyrir 22 árum og gagnrýnir Einar Þorsteinsson: „Fólk eins og ég telst sem sagt ekki með“

„Mikið er ég þakk­lát fyrir að hafa valið mér flokk sem er þessari full­yrðingu Einars bara alls ekki sam­mála,“ segir Sabine Leskopf, formaður innkaupa- og framkvæmdaráðs Reykjavíkur, en hún skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi kosningar.

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag gagnrýnir Sabine oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík, Einar Þorsteinsson, fyrir orð sem hann lét falla í Pallborði hjá Vísi og Stöð 2 fyrir kosningarnar. Þar hafi Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, bent á að Reykvíkingum hafi fjölgað um tíu þúsund á síðustu fjórum árum. Einar hafi aftur á móti svarað því til að „megnið af því fólki kæmi að utan“.

Kostaði íslenska skattborgara ekki krónu

„Inn­flytj­endur teljast sem sagt ekki með. Ég hef búið á Ís­landi í 22 ár, ég veit varla lengur hvort ég er Þjóð­verji eða Ís­lendingur. En ég á heima í Laugar­dalnum, þar gengu börnin mín í skólann, þar labba ég með hundinn minn, þar tek ég spjall við fólkið í hverfis­búðinni. Ég kom hingað með MA og við­bótar­nám sem kostaði ís­lenska skatt­borgara ekki krónu. Ég kom líka hingað með lífs- og starfs­reynslu og síðast en ekki síst með tvö af börnunum mínum sem þýska heil­brigðis­kerfið sá um að koma í heiminn alveg ó­keypis fyrir ís­lenska skatt­greið­endur. Ég hef unnið hér í 22 ár og þar að auki starfað þrot­laust sem sjálf­boða­liði og aktívisti í þágu sam­fé­lagsins, í mál­efnum inn­flytj­enda, í for­eldra­starfi og dýra­vernd sem dæmi. En fólk eins og ég telst sem sagt ekki með,“ segir hún í grein sinni.

Hún segist ekki tilbúin að afskrifa fólk sem kemur hingað „að utan“ og er oft með mikla menntun og lífsreynslu, þrár og drauma, og óbilandi metnað fyrir framtíð barnanna sinna. „Fólk sem oftast er á besta aldri sem leggur sam­kvæmt öllum tölum miklu meira til sam­fé­lagsins en það fær út­hlutað.“

Samfylkingin sker sig úr

Sabine bendir á að flestir flokkar séu að vakna við þann veruleika að samkvæmt nýjum kosningalögum eigi yfir 23.000 inn­flytj­endur á landinu öllu rétt á að kjósa í sveitar­stjórnar­kosningum.

„Kosninga­réttindi eru bundin við að hafa haft lög­heimili hér í þrjú ár en Norður­landa­búar mega kjósa strax. Flestir flokkar þýða núna eitt­hvað á ensku, sumir líka á pólsku og eigin­lega allir eru með inn­flytj­endur í skraut­sætum. Stjórnar­ráðið hefur hins vegar varla haft fyrir því að dreifa þessum upp­lýsingum; ein­hverjar upp­lýsingar á ensku eru faldar á ís­lenska vef­svæðinu en enska vef­svæðið nefnir ekki einu sinni sveitar­stjórnar­kosningar. Á­huga­leysi á mála­flokknum hjá ríkis­stjórninni er al­gert enda ekki einu sinni búið að skipa inn­flytj­enda­ráð fé­lags­mála­ráðu­neytisins sem átti að starfa milli kosninga. Og fram­kvæmda­á­ætlunin í mál­efnum inn­flytj­enda hefur legið til­búin en ó­af­greidd í skúffum ríkis­stjórnarinnar í tvö ár.“

Sabine segir að sá flokkur sem sker sig úr hvað þetta varðar sé Samfylkingin. Í Reykjavík sé einn innflytjandi á meðal fjögurra efstu frambjóðenda og fjórir á meðal efstu tuttugu. Þá sé flokkurinn með metnaðarfulla stefnu í málefnum innflytjenda.

„Ég er Reyk­víkingur. Ég er líka jafnaðar­maður og stolt af borginni minni og hverfinu mínu því þar er sam­fé­lag sem er opið, um­burðar­lynt og skemmti­legt. Ég telst víst með.“